Fótbolti

Messi virtist athuga púls mótherja eftir að hann „sló“ hann niður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi í leiknum sögulega á milli Barcelona og Athletic Bilbao á sunnudagskvöldið.
Lionel Messi í leiknum sögulega á milli Barcelona og Athletic Bilbao á sunnudagskvöldið. AP/Miguel Morenatti

Lionel Messi fékk sitt fyrsta rauða spjald á ferlinum á sunnudagskvöldið en eftirtektarsamir fóboltaáhugamenn tóku eftir einu hjá Argentínumanninum.

Messi var búinn að spila yfir 750 leiki fyrir Barcelona á ferlinum án þess að fá rautt spjald þegar hann var rekinn af velli í úrslitaleik spænska Ofurbikarsins á sunnudagskvöldið.

Messi á að hættu að fá margra leikja bann fyrir brotið en hann „sló“ þá niður Asier Villalibre hjá Athletic Bilbao þegar boltinn var víðs fjarri.

Eftir að hafa fengið að líta rauða spjaldið frá dómara leiksins þá virtist Messi gera svolítið sem vakti athygli netverja.

Það leit út fyrir að Lionel Messi væri að athuga hvort allt væri í lagi með Asier Villalibre hjá Athletic Bilbao en myndirnar að atvikinu sýndu annað.

Messi virtist nefnilega athuga púlsinn hjá Asier Villalibre sem lá þarna sárþjáður í grasinu. Messi setti tvo fingur á hálsinn á Villalibre sem er venjan þegar menn mæla hjartsláttinn.

Argentínumaðurinn var augljóslega að ýja að því að Asier Villalibre væri þarna að ýkja mjög atvikið.

Messi var orðinn mjög pirraður á þessum tímapunkti enda langt liðið á framlenginguna og Barcelona að tapa leiknum.

Höggið hans var þó ekki mikið en Villalibre gerði sitt í að tryggja það að fá rauða spjaldið á Messi. Dómarinn skoðaði myndband af atvikinu áður en hann sendi Messi í sturtu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×