Körfubolti

NBA dagsins: Jokic tætti Úlfana í sig

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nikola Jokic er með þrefalda tvennu að meðaltali í leik í vetur.
Nikola Jokic er með þrefalda tvennu að meðaltali í leik í vetur. getty/AAron Ontiveroz

Leikmenn Minnesota Timberwolves réðu ekkert við Nikola Jokic þegar Úlfarnir töpuðu fyrir Denver Nuggets, 123-116, í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Jokic skoraði 35 stig, tók fimmtán fráköst og gaf sex stoðsendingar í öðrum sigri Denver í röð. Liðið virðist vera komið á beinu brautina eftir að hafa aðeins unnið einn af fyrstu fimm leikjum sínum á tímabilinu.

Denver fór alla leið í úrslit Vesturdeildarinnar á síðasta tímabili og talsverðar væntingar eru gerðar til liðsins í vetur, ekki síst vegna Jokic sem sýndi allar sínar bestu hliðar í nótt. Serbneski miðherjinn er stoðsendingahæstur í NBA á tímabilinu með 11,9 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Jamal Murray hafði nokkuð hægt um sig gegn Minnesota, skoraði þrettán stig og tók aðeins sjö skot. Will Barton átti hins vegar góðan leik og skoraði tuttugu stig og JaMychal Green og Facundo Campazzo skiluðu samtals 28 stigum af bekknum. DiAngelo Russell skoraði 33 stig og gaf ellefu stoðsendingar fyrir Minnesota sem hefur aðeins unnið tvo leiki á tímabilinu.

Í myndbandinu hér fyrir neðan má sjá allt það helsta úr leik Denver og Minnesota auk viðtals við Jokic.

Þar má einnig sjá brot úr sigri Los Angeles Lakers á Memphis Grizzlies og úr sigri Brooklyn Nets á Utah Jazz sem og tíu flottustu tilþrif leikja næturinnar.

Klippa: NBA dagsins 6. janúar

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×