Fótbolti

Tveir leikmenn Villa treysta sér mögulega ekki til þess að spila fari úrvalsdeildin aftur af stað

Anton Ingi Leifsson skrifar
Dean Smith er stjóri Villa og er með John Terry sér við hlið sem aðstoðarþjálfara.
Dean Smith er stjóri Villa og er með John Terry sér við hlið sem aðstoðarþjálfara. vísir/getty

Dean Smith, stjóri Aston Villa sem er í harðri fallbaráttu í ensku úrvalsdeildinni, segir að félagið gæti verið án tveggja leikmanna byrji enski boltinn á nýjan leik á tímum kórónuveirunnar og hræðist hann öryggi þeirra sem koma að félögunum byrji boltinn á Englandi að rúlla.

Villa er tveimur sætum frá öruggu sæti en þeir eiga þó leik til góða. Með sigri í þeim leik fara þeir upp úr fallsæti svo það væri heldur betur ósanngjarnt gagnvart Villa verði deildin blásin af og liðið send niður um deild. Þó hugsar Smith fyrst og fremst um öryggi leikmanna sinna.

„Það vilja allir byrja að æfa en þeir vilja líka sjá hvaða reglur verða varðandi öryggi þeirra. Það er ákveðinn áhætta að snúa til baka til æfinga fyrir alla leikmenn og ég held að þeir vilji að það verði tikkað í öll boxin áður en þeir mæta svo þeir séu öruggir,“ sagði Smith við The Football Show á Sky Sports.

Hann segir að í hópi Villa séu tveir leikmenn sem gætu mögulega ekkert spilað ef boltinn fer aftur af stað á Englandi, því annað hvort þeir eða einhver nákominn er í svokölluðum áhættuhóp. Þeir hafi áhyggjur af stöðunni og eðlilega.

„Við erum með leikmenn sem er með astma og við erum með leikmann þar sem tengdamamma hans er í áhættuhóp og býr heima hjá fjölskyldunni. Þú verður að fara varlega. Heilsa leikmanna er í fyrirrúmi og ef þeir treysta sér ekki til þess að spila þá verðum við að spila án þeirra og þeir koma þegar þeir treysta sér. Við verðum að hlusta á leikmennina okkar og þeirra áhyggjur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×