Skoðun

Raddir okkar skipta máli

Jenný Jóakimsdóttir skrifar

Leit tískuiðnaðarins að lægsta verðinu kostar mikið hvað varðar heilsufar og jafnvel líf starfsmanna. Þúsundir hafa látist í verksmiðjubrennum. Aðrar hættur eins og notkun hættulegra efna, hávaði, hiti og slæm loftræsting leynast víða. Áttatíu prósent af þeim 40-60 milljón starfsmanna í fataiðnaði eru konur og það er engin tilviljun. Í atvinnugrein sem er alræmd fyrir ósæmandi vinnuskilyrði, lág laun, þvingaða yfirvinnu og óöruggar vinnuaðstæður eru konur oft sviptar fæðingarorlofi, umönnum barna og öruggum vinnuaðferðum. Þær verða síðan ítrekað fyrir kynbundnu ofbeldi sem viðgengst á vinnustöðunum.

Verksmiðjufólki sem tekst að skipuleggja einhverskonar samstöðu gegn réttindabrotum verður oft fyrir kúgun eða er sagt upp störfum. Tískumerkin reyna stundum að neita ábyrgð sinni með því að fela sig á bakvið útvistun framleiðslunnar. Hins vegar eru alþjóðlegir staðlar skýrir að því leyti að vörumerki verða að ganga úr skugga um að virða þurfi öll réttindi á vinnumarkaði og þeim ber að veita full úrræði þegar brot eiga sér sað. Mesta framleiðslan fer þó enn fram í löndum þar sem vinnulöggjöf er veik. Konur bera byrðar heimilisstarfa og umönnunar barna við hlið verksmiðjustarfsins og hafa oft lítinn tíma til að skipuleggja sig og berjast fyrir réttindum sínum.

Fata- og skóiðnaðurinn teygir sig um allan heim. Föt og skór sem seldir eru í verslunum í Evrópu, Bandaríkjunum, Kanada, og öðrum heimshlutum ferðast venjulega um allan heim. COVID-19 heimsfaraldurinn snertir líf fólks um allan heim en er sérstaklega að snerta fata- og skóiðnaðinn. Starfsmenn hætta heilsu sinni í vinnu í fjölmennum verksmiðjum án nægilegrar verndar og hættu á að missa lífsviðurværi sitt ef þeir eru sendir heim án launa.

Á flík sem stendur „Made in China“ segir ekkert um það í hverri af þeim þúsundum verksmiðja í Kína flíkin var framleidd og hverjar voru vinnuaðstæður starfsmanna. Sama á við um flíkur sem framleiddur eru í Evrópu og á stendur „Made in Europe“. Nýlega hafa borist sögur um slæm skilyrði starfsmanna í fata verksmiðjum i Leicester í Englandi, þar sem starfsfólk var látið vinna upp i pantanir, þrátt fyrir að vera veik vegna Covid-19. Jafnvel pantanir sem bárust frá okkur hér á Íslandi.

Þegar heimsfaraldurinn skall á Evrópu og Bandaríkjunum brugðust vörumerki og smásalar við eins og venjulega: með því að ýta áhættunni niður aðfangakeðjuna. Með því að hætta við allar pantanir sem gerðar voru fyrir kreppuna - sumar pantanir voru þegar tilbúnar til sendingar. Þetta þýddi að verksmiðjur gátu ekki greidd starfsmönnum sínum laun og milljónir starfsmanna í fataverksmiðjum misstu störf sín. Eftir uppnám almennings sem varð er Ayesha Barenblat stofnandi Remake (sem eru félagasamtök sem standa fyrir vitundarvakningu um sjálfbærni í tískuiðnaðinum) notuðu myllumerkið #PayUP sem fljótlega fór víða á samfélagsmiðlum ákváðu mörg stór vörumerki að skuldbinda sig til að greiða pantanir.

Samstaða félagasamtaka er sterk á alþjóðavísu og sem upplýstir neytendur getum við haft víðtæk áhrif. Í júní 2019, eftir margra ára baráttu margra félagasamtaka samþykkti Alþjóðavinnumálastofnunin sögulegan sáttmála til að draga úr einelti á vinnustað. Þetta var fyrsti alþjóðlegi staðallinn sem sérstaklega er ætlaður til að takast á við einelti á vinnustöðum og tengslanet félagasamtaka ýta á stjórnvöld og vörumerki til að tryggja að sáttmálanum verði hrint í framkvæmd.

Mikilvægt er að herja á vörumerki, stjórnvöld og aðra hagsmunaaðila til að tryggja grundvallarmannréttindi og gæta þess að þau gleymist ekki þegar við tölum um sjálfbæra fataframleiðslu. Stöndum saman með konunum sem búa til fötin okkar. Raddir okkar skipta máli. Spyrjum hvaðan fötin okkar koma og við hvaða skilyrði þau eru búin til.

Kvenfélagasamband Íslands vinnur að verkefninu Vitundarvakning um fatasóun með stuðningi frá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Höfundur er starfsmaður Kvenfélagasambands Íslands.

Greinin er hluti af sextán daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi. Átakið er alþjóðlegt og var fyrst haldið árið 1991. Markmið þess er að knýja á um afnám alls kynbundins ofbeldis í heiminum.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×