Í tilkynningu frá Icelandair segir að farþegatölur endurspegli þær ferðatakmarkanir sem í gildi eru á landamærum Íslands. „[...] Enda hafa þær haft mikil áhrif á eftirspurn eftir flugi til og frá Íslandi.“ Fraktflutningar félagsins í nóvember hafi þó verið sambærilegir og á sama tíma í fyrra.
Heildarfjöldi farþega í millilandaflugi hjá Icelandair var um 7.000 í nóvember og dróst saman um 97% á milli ára. Farþegafjöldi til og frá Íslandi skiptist nokkuð jafnt, um 3.400 farþegar á hvorri leið.
Farþegafjöldi í tengiflugi milli Evrópu og Norður Ameríku var áfram „í algjöru lágmarki“ vegna ferðatakmarkana í Norður Ameríku og á ytri landamærum Schengen-svæðisins. Heildarsætaframboð hjá Icelandair dróst saman um 95% á milli ára.
Flutningastarfsemi félagsins hefur þó líkt og síðustu mánuði dregist mun minna saman en farþegaflug. Fraktflutningar í nóvember drógust aðeins saman um 2% á milli ára.
Icelandair býst við því að farþegum félagsins fjölgi nú í desember þegar fólk tekur að sækja heim eða út til ættingja yfir jólin. Ferðum hefur verið fjölgað í kringum hátíðarnar vegna þessa.