Fótbolti

Hrósar þeim sem spila á Ís­landi og segir það „á­gætis til­hugsun“ að leiða Ís­land mögu­lega út á Old Traf­ford

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sara Björk með boltann í fyrri leiknum gegn Svíþjóð.
Sara Björk með boltann í fyrri leiknum gegn Svíþjóð. vísir/vilhelm

„Þetta er geggjuð tilfinning. Þetta er búið að taka sinn tíma. Það hefði verið skemmtilegt að fagna eftir leikinn í dag en það er geggjuð tilfinning að vera búin að tryggja sig á EM.“

Það voru fyrstu viðbrögð Söru Bjarkar Gunnarsdóttur, fyrirliða íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, eftir að ljóst var að liðið tryggði sér sæti á fjórða stórmótið. Mótið verður þó ekki spilað fyrr en eftir eitt og hálft ár.

„Það er löng bið en þetta eru bara aðstæðurnar. Við tökum næsta ár í góðan undirbúning. Við erum búin að tryggja okkur þrisvar áður og í þetta skipti viljum við gera eitthvað almennilegt á EM.“

Sara er virkilega ánægð með undankeppnina og hópinn sjálfan.

„Við erum með ótrúlega sterkan hóp í þessari undankeppni. Við vorum vel undirbúnar fyrir 2017 en persónulega fannst mér við ekki eiga gott mót. Við náðum ekki að sýna hvað í okkur bjó og núna er tækifæri til þess. Hópurinn er búinn að styrkjast og sterkir leikmenn komið inn í hópinn.“

Mikil hróp og köll heyrðust bak við Söru og hún sagðist vera missa af fjörinu.

„Ég er að missa af partýinu að tala hérna við ykkur! Það er smá partý hérna fyrir utan,“ sagði Sara létt í bragði áður en hún snéri sig að undankeppninni sjálfri sem reyndist erfið. Leikmenn á Íslandi gátu varla æft né leikið knattspyrnu og fyrirliðinn segir að þetta hafi reynt á.

„Ef ég á að bera mig saman við leikmennina á Íslandi og þá fengið að spila, sem ég er þakklát fyrir, sem er ekki sjálfgefið. Ég held að þetta hafi verið erfitt og krefjandi ár fyrir þá leikmenn sem hafa þurft að taka pásu og hlé. Hrós á þær að halda sér í formi og klára þetta svona. Ég vissi ekki hvort að ég væri að fara spila í bikarnum, deildinni né Meistaradeildinni. En við gerðum það besta úr aðstæðunum.“

Einn af leikvöngunum sem spilað verður á er Old Trafford og Sara er spennt fyrir sumrinu 2022.

„Það er ágætis tilhugsun. Ég held að þetta verði alveg geggjað mót. Geggjaðir leikvangar og ég held fyrir okkur og þjóðina mikill spenningur og tilhlökkun,“ sagði Sara að lokum áður en hún kvaddi fjölmiðlafólk.


Tengdar fréttir

Ísland á EM

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu er komið á fjórða stórmótið. Þetta varð ljóst eftir sigur Íslands á Ungverjalandi í dag og önnur úrslit féllu svo með Íslandi síðar í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×