Lífið

Lesa frum­samda hryllings­sögu og spila tölvu­leiki í vetrar­fríinu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Nadine Guðrún Yaghi skrifa
Vinirnir Felix og Dagur lesa upp hryllingssöguna sína Drungalegt drepó.
Vinirnir Felix og Dagur lesa upp hryllingssöguna sína Drungalegt drepó. Stöð 2

Strákur í fjórða bekk er með ýmsar hugmyndir um hvað sé hægt að gera í haustfríinu sem hófst í dag. Sjálfur las hann upp hryllingssögu sem hann samdi sem verður streymt á netinu.

Vinirnir Felix og Dagur munu á morgun lesa hryllingssöguna Drungalegt drepó sem þeir sömdu sjálfir og verður upplestrinum streymt á Facebook-síðu Borgarbókasafnsins á morgun. Upplesturinn er partur af streymisviðburðum sem Reykjavíkurborg bíður upp á í haustfríi grunnskólabarna.

Felix vonast til að upplesturinn muni skemmta fjölskyldum í fríinu. Sjálfur er hann kominn í sóttkví og þarf því að vera heima með mömmu sinni í vetrarfríinu.

Hann er kominn með fullt af hugmyndum um hvað sé hægt að gera heima hjá sér.

„Spila töluleiki, læra að forrita, horfa á sjónvarpið, æfa sig að drippla bolta, halda bolta á lofti, spila borðspil, spila bingó, spila venjulegt spil og baka,“ segir Felix.

Reykjavíkurborg hefur tekið saman hugmyndabanka um afþreyingu fyrir fjölskyldur í fríinu á tímum kórónuveirunnar. Hugmyndirnar eru ótímasettar og hugsaðar þannig að fólk þurfi ekki að safnast saman á einum stað.

Felix er líka með fullt af hugmyndum fyrir þá sem vilja fara út að leika.

„Fara í fótbolta, fara að róla, fara í eltingaleik og búa til sandkastala,“ segir Felix.

Þá segir hann að enginn sem horfi á Drungalegt drepó verði svikinn.

„Drungalegt drepó var greinilega enginn draumur…“ les Felix úr sögunni þeirra Dags.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×