Halldór Jón Garðarsson, formaður knattspyrnudeildar Hauka, vandar Þorsteini Halldórssyni, þjálfara Breiðabliks, ekki kveðjurnar í pistli sem hann skrifar á fésbókarsíðu Hauka.
Ummæli Þorsteins um Sveindísi Jane Jónsdóttir í síðasta mánuði vöktu mikla athygli en þar sagði Þorsteinn að Sveindís hefði fyrr átt að fljúga úr hreiðrinu í Keflavík og í sterkari æfingaumhverfi.
Ummælin voru mikið rædd og nú fær hann Þorsteinn orð í eyra úr Hafnarfirði.
„Tilgangurinn með þessum ummælum virðist vera markaðssetning á kvennaliði Breiðabliks þar sem markmiðið er að fá enn fleiri efnilegar stúlkur til að ganga til liðs við félagið,“ skrifaði Halldór. Og hélt áfram.
„Stelpur sem spila með „lakari“ liðum í Pepsí Max deildinni, Lengjudeildinni eða í 2. deildinni. Stelpur sem eru í stórum hlutverkum í sínum liðum, fá að njóta sín, takast á við mótlæti, að þroskast og þróast sem leikmenn. Það kemur ávallt að þeim tímapunkti að efnilegir leikmenn taka næsta skref á sínum ferli, hvort sem það er að fara í sterkara lið hér á landi eða beint út í atvinnumennsku.“
„Hins vegar er þessi markaðssetning þjálfara Breiðablik taktlaus þar sem tilraunin virðist vera sú að reyna að fá 15 til 16 ára stúlkur til að yfirgefa sín uppeldisfélög – það er verið að grafa undan þeirri uppbyggingu sem á sér stað í fjölmörgum félögum.“