Nú er ljóst að aðeins verður framleidd ein þáttaröð í viðbót af hinum geysivinsælu raunveruleikaþáttum Keeping Up With the Kardashians. Þættirnir segja frá daglegu lífi Kardashian/Jenner fjölskyldunni. Meðal þeirra sem reglulega hefur brugðið fyrir í þáttunum eru Kim Kardashian, Kris Jenner, Kylie Jenner og Kendall Jenner.
Í Instagram-færslu sem birtist fyrir skömmu segir frumkvöðullinn það vera sér þungbært að tilkynna um ákvörðun sína og fjölskyldu sinnar, sem hafi verið erfið.
„Eftir það sem verða orðin 14 ár, 20 þáttaraðir, hundruð þátta og fjöldi systurþátta (e. spin offs) erum við meira en þakklát ykkur öllum sem fylgdust með okkur öll þessi ár – í gegn um góðu stundirnar, slæmu stundirnar, hamingjuna, tárin, fjöldamörg sambönd og börn. Við munum ávallt ylja okkur við þessar yndislegu minningar og allt það óteljandi fólk sem við kynntumst á þessari vegferð,“ skrifar Kardashian.
Þá þakkaði Kim þeim þúsundum einstaklinga og fyrirtækja sem hafa komið að gerð þáttanna. Sérstakar þakkir fengu svo Ryan Seacrest, sjónvarpsstöðin E! og framleiðsluteymið að baki þáttunum. Í færslunni kemur einnig fram að síðasta þáttaröðin fari í loftið á næsta ári, 2021.
„Án Keeping Up with The Kardashians væri ég ekki þar sem ég er í dag. Ég er svo ótrúlega þakklát öllum sem fylgdust með og studdu mig og fjölskyldu mína 14 ótrúlegu ár. Þættirnir hafa gert okkur að þeim sem við erum og ég verð að eilífu skuldbundin þeim sem spiluðu hlutverk í því að móta ferla okkar og breyta lífi okkar til frambúðar.“