Erlent

Kjörinn nýr for­maður Frjáls­lyndra demó­krata

Atli Ísleifsson skrifar
Ed Davey hlaut 42.756 atkvæði í formannskjörinu, en mótframbjóðandi hans, Layla Moran, 24.564 atkvæði.
Ed Davey hlaut 42.756 atkvæði í formannskjörinu, en mótframbjóðandi hans, Layla Moran, 24.564 atkvæði. Getty

Breski þingmaðurinn Ed Davey hefur verið kjörinn nýr formaður Frjálslyndra demókrata. Er hann fjórði einstaklingurinn til að gegna formannsembætti í flokknum á síðustu fimm árum.

Davey er þingmaður Kingston og Surbiton í London og hefur setið á þingi frá árinu 2017. Auk þess var hann þingmaður kjördæmisins á árunum 1997 til 2015. Hann var ráðherra orku- og loftslagsmála í samsteypustjórn Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins, undir forsæti David Cameron, á árunum 2012 til 2015.

Frjálslyndir demókratar biðu afhroð í þingkosningunum á síðusta ári og náðu einungis að tryggja sér ellefu þingsæti. Formanni flokksins, Jo Swinson, tókst ekki að halda þingsæti sínu og sagði af sér formennsku í kjölfarið.

Davey hlaut 42.756 atkvæði í formannskjörinu nú, en mótframbjóðandi hans, Layla Moran, 24.564 atkvæði.

Frjálslyndir demókratar hafa jafnan verið þriðji stærsti flokkurinn á breska þinginu, og einstaka sinnum komist í oddastöðu, líkt og eftir kosningarnar 2010.

Flokkurinn barðist fyrir því fyrir síðustu kosningar að draga útgöngu Breta úr ESB til baka, en rannsóknir hafa sýnt að breskir kjósendur virðast ekki vera með á hreinu fyrir hvað flokkurinn stendur nú þegar Bretar hafa gengið úr sambandinu. Davey sagði það nú verkefni sitt að byggja upp flokkinn á ný til að hann höfði á ný til fleiri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×