Fótbolti

Sláandi staðreynd um Madonnu, PSG og Leipzig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Madonna og mynd frá leik Paris Saint Germain og RB Leipzig í gær.
Madonna og mynd frá leik Paris Saint Germain og RB Leipzig í gær. Samsett/EPA

Undanúrslitaleikur Paris Saint Germain og Leipzig í gærkvöldi var leikur tveggja liða sem hafa bæði verið að skrifa nýjan kafla í sögu félagsins í Meistaradeildinni í ár.

Nooruddean eða skeggjaði snillingurinn eins og hann kallar sig á Twitter, benti á athyglisverða staðreynd í gær svona til að sýna flestum hvað þau eru í raun orðin gömul.

Mótherjarnir í fyrri undanúrslitaleik Meistaradeildarinnar eru nefnilega ekki gömul félög. Paris Saint Germain var stofnað 12. ágúst 1970 og hélt því upp á hálfrar aldar afmælið sitt á dögunum.

RB Leipzig er hins vegar miklu yngra enda stofnað 19. maí 2009 eða fyrir rúmum ellefu árum síðan. Þetta fékk Nooruddean til að benda á þessa sjokkerandi staðreynd hér fyrir neðan.

Nooruddean var sjálfur það uppverðraður við þessa uppgötvun sína að hann skrifaði þetta á Twitter. Þar stóð hjá honun: Madonna er eldri en PSG og RB Leipzig til samans.

Bandaríska söngkonan Madonna, oft nefnd drottning popptónlistarinnar, átti líka afmæli fyrir nokkrum dögum því hún hélt upp á 62 ára afmælið sitt 16. ágúst síðastliðinn.

Ef við leggjum saman aldur knattspyrnufélaganna PSG og RB Leipzig þá nær það aðeins upp í 61 ár.

Annar Twitter-notandi svaraði færslu Nooruddean með annarri staðreynd.

Vogue, eitt frægasta lag Madonnu, kom út 20. mars 1990 eða tveimur árum áður en Neymar fæddist. Ray of Light platan hennar kom síðan út í febrúar 1998, eða sex mánuðum áður en Mbappé fæddist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×