Hertogahjónin af Sussex, þau Harry og Meghan, hafa ákveðið að fara úr framlínu bresku konungsfjölskyldunnar og verða fjárhagslega sjálfstæð.
Þau greina frá þessu í færslu á Instagram-síðu sinni og segjast taka ákvörðunin að vel ígrunduðu máli. Þá ætla hjónin að verja tíma sínum jafnt í Bretlandi sem og Norður-Ameríku, en Meghan er fædd og uppalin í Bandaríkjunum.
Fjölskyldan var hins vegar í Kanada í jólafríinu og samkvæmt heimildum TMZ munu hjónin flytja þangað.
Þrátt fyrir þessa breytingu segjast Harry og Meghan ætla að styðja áfram við drottninguna og tilteknar skyldur sem þau hafa gagnvart henni, Breska samveldinu og þeim samtökum sem þau styðja við og vernda.
Hjónin segja að það jafnvægi sem þau nái fram með því að verja tíma sínum bæði í Bretlandi og Norður-Ameríku veiti þeim tækifæri til þess að ala son sinn, Archie, upp þannig að hann hafi skilning og þekkingu á konunglegri arfleið sinni og rými til þess að einbeita sér að næsta kafla í þeirra lífi, sem felur meðal annars í sér að stofna ný góðgerðarsamtök.
View this post on Instagram