Ferðamannaiðnaðurinn í heiminum hefur orðið af tugum þúsunda milljarða króna vegna kórónuveiruheimsfaraldursins, um þrefalt meira en í fjármálakreppunni sem gekk yfir heiminn árið 2009, að mati ferðamálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNWTO).
Faraldurinn svo gott sem lamaði ferðamennsku í heiminum tímabundið þegar ríki gripu til landamæralokana, útgöngu- og samkomubanna og annarra sóttvarnaráðstafana í vetur og vor. Aðeins hefur lifnað yfir ferðamennsku eftir að ríki byrjuðu að slaka á aðgerðum sínum.
Í nýrri skýrslu UNWTO kemur fram að ferðamönnum fækkaði um 300 milljónir frá janúar til maí, um 56% á milli ára. Tekjutapið hafi numið jafnvirði meira en 43.000 milljarða íslenskra króna, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
Zurab Pololikashvili, framkvæmdastjóri UNTWO, segir tölurnar sýna fram á mikilvægi þess að koma ferðamennsku aftur af stöð um leið og það verður öruggt.
„Gríðarlegt hrun í alþjóðlegri ferðamennsku setur lífsviðurværi margra milljóna í hættu, þar á meðal í þróunarríkjum,“ segir hann.
Vart hefur orðið við bakslag í glímunni við faraldurinn sum staðar þar sem slakað hefur verið á höftum. Þannig settu bresk stjórnvöld Spán skyndilega aftur á lista yfir hættusvæði vegna faraldursins á sunnudag vegna fjölgunar smita á sumum svæðum þar í landi. Spænsk stjórnvöld hafa mótmælt því að ferðalangar sem koma til Bretlands frá Spáni þurfi nú að fara í sóttkví.