Fótbolti

Sneijder greinir frá áfengisvanda sínum hjá Real Madrid

Ísak Hallmundarson skrifar
Sneijder náði sér ekki á strik hjá Madrid en blómstraði hjá Inter
Sneijder náði sér ekki á strik hjá Madrid en blómstraði hjá Inter getty/Etsuo Hara

Wesley Sneijder, hollenskur fyrrum atvinnumaður í fótbolta, greinir frá því í sjálfsævisögu sinni að hann hafi átt við áfengisvanda að stríða þegar hann var leikmaður Real Madrid.

Hann var keyptur til Real frá Ajax þegar hann þótti líklegur til að verða einn af bestu leikmönnum heims en stóðst ekki væntingar hjá Madrídarliðinu. Hann fór síðan til Inter árið 2009 og varð fljótlega einn af bestu leikmönnum í heimi á þeim tíma.

Sneijder segir að næturlífið í Madrid og áfengisvandi hans sé ástæða þess að hann náði sér ekki á strik í Real treyjunni.

,,Ég gerði mér ekki grein fyrir því að félagsskiptin til Real þýddu að ég myndi flytja í næturlífið í Madrid. Ég var ungur á framabraut og naut allrar athyglinnar. 

Ég notaði ekki eiturlyf en ég notaði mikið áfengi og lifði ,,rokk og ról lífsstílnum‘‘ sem ein af stjörnum Real Madrid. Ég var veikburða og streittist ekkert á móti, ég leyfði fólki að koma fram við mig eins og stjörnu. Það var alltaf einhver liðsfélagi með mér, vanalega var það Guti,‘‘ segir Sneijder. 

Hann segir einnig að lífsstíllinn sem hann lifði hafi leitt til þess að fyrsta eiginkona hans hafi skilið við hann. Það gerði illt verra.

,,Ég átti erfitt með að vera einn. Ég þoldi það ekki. Hvers vegna ætti mér að líða þannig með alla þessa vini í kringum mig? Ég gerði mér ekki grein fyrir því að besti vinur minn var Vodka-flaskan.

Aðrir bentu mér á þetta, Ruud van Nistelrooy og Arjen Robben sögðu að ef þetta héldi svona áfram myndi ég ekki endast lengi. Mér tókst bara að halda mér í liðinu vegna leikskilnings minns, líkamlega var ég á hraðleið niður.‘‘

Sneijder vann síðan þrennuna með Inter árið 2010, deildina, bikarinn og Meistaradeildina, auk þess að fá silfurverðlaun á HM með hollenska landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×