Innlent

Vill að lestar­sam­göngur á Ís­landi verði skoðaðar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, vill að lestarsamgöngur á Íslandi verði skoðaðar.
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, vill að lestarsamgöngur á Íslandi verði skoðaðar. Vísir/Vilhelm - EPA/FILIP SINGER

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, vill að lestarsamgöngur á Íslandi verði skoðaðar. Hún telur það sérstaklega mikilvægt í ljósi kórónuveirufaraldursins, loftslagsbreytinga og lífsgæða komandi kynslóða.

Til skoðunar er hjá Evrópusambandinu að nota hluta af tveggja trilljóna evra björgunarsjóði til að koma upp hraðlestakerfi um álfuna. Sigurborg segir mikilvægt að samgönguáætlun taki mið af loftslagsmálum og að hún sé mótuð frá grunni til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það þurfi að gera til að við sem þjóð stöndum við Parísarsáttmálann.

„Nýlega lét Loftslagsráð gera úttekt á stjórnsýslunni í kring um loftslagsmál á Íslandi. Niðurstaðan var sláandi. Verkaskipting er óskýr, það skortir samræmda heildarsýn, utanumhaldið er óljóst og losaralegt og í raun gengið svo langt að segja að ekki sé nein raunveruleg stjórnsýsla í loftslagsmálum,“ skrifar Sigurborg í færslu á Facebook.

„Þegar samgönguáætlun var afgreidd úr umhverfis- og samgöngunefnd var þetta í nefndaráliti meirihlutans: „Nefndin leggur áherslu á að áætlanir og áform stjórnvalda varðandi orkuskipti og loftslagsmál taki mið af samgönguáætlun og innviðauppbyggingu samgangna.“ Þarna er orsök og afleiðingu snúið á hvolf,“ bendir Sigurborg á.

„Skoðum kosti og galla við lestarsamgöngur. Fyrir fólk og vörur. Skoðum hvaða leiðir eru færar til framtíðar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×