Innlent

Brjálað að gera hjá lögreglu í nótt

Samúel Karl Ólason skrifar
Maður sem var handtekinn í nótt hafði verið vísað úr landi og var settur í endurkomubann. Hann gistir fangageymslu vegna rannsóknar lögreglunnar.
Maður sem var handtekinn í nótt hafði verið vísað úr landi og var settur í endurkomubann. Hann gistir fangageymslu vegna rannsóknar lögreglunnar. Vísir/Vilhelm

Töluverður erill var hjá Lögreglu höfuðborgarsvæðisins í gærkvöldi og í nótt. Frá ellefu í gærkvöldi til sjö í morgun komu 60 verkefni á borð lögreglu. Miðað við dagbók lögreglu voru margir handteknir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna. Einn var handtekinn vegna líkamsárásar í miðbænum og er hann grunaður um að hafa sparkað í höfuð manns.

Þá kom eldur upp á svölum húss í Hafnarfirði. Um talsverðan eld var að ræða og er talið að hann hafi kviknað út frá kerti. Þá var einn handtekinn fyrir eignaspjöll í sameign fjölbýlishúss. Hann var undir áhrifum áfengis.

Maður sem var handtekinn í nótt hafði verið vísað úr landi og var settur í endurkomubann. Hann gistir fangageymslu vegna rannsóknar lögreglunnar.

Lögregluþjónar stöðvuðu bíl á Miklubrautinni seint í gærkvöldi. Sá bíll var ótryggður og voru númeraplöturnar því fjarlægðar. Þar að auki reyndist ökumaðurinn ekki með gild ökuréttindi. Annar sem handtekinn var vegna ölvunaraksturs í Hamraborg hafði aldrei öðlast ökuréttindi. Þá var einn stöðvaður í Breiðholti vegna gruns um ölvunarakstur. Hann gat ekki rætt við lögregluþjóna vegna ölvunar og gisti fangageymslur í nótt.

Ökumaður var sömuleiðis handtekinn á Sæbraut á nótt eftir að í ljós kom að hann var með úðavopn í fórum sínum og fíkniefni. Þar að auki reyndist hann undir áhrifum fíkniefna. Annar ökumaður var vopnaður kylfu og var með fíkniefni. Hann var sömuleiðis undir áhrifum fíkniefna og hefur margsinnis verið sviptur ökuréttindum.

Einn ökumaður sem stöðvaður var vegna ölvunarakstur neitaði alfarið að hafa verið að keyra þrátt fyrir að hann hafi verið gómaður undir stýri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×