Lífið

Segir að Anna prinsessa hafi í raun ekki hunsað Trump

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Anna prinsessa ræðir hér við Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, í móttökunni á þriðjudag.
Anna prinsessa ræðir hér við Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, í móttökunni á þriðjudag. vísir/getty
Valentine Low, blaðamaður á breska dagblaðinu The Times, segir að Anna prinsessa hafi ekki verið að hunsa Donald Trump, Bandaríkjaforseta, í móttöku í Buckingham-höll á þriðjudag sem haldin var í tilefni 70 ára afmælis Atlantshafsbandalagsins (NATO).

Myndband sem sýndi Elísabetu II Englandsdrottningu gefa Önnu prinsessu bendingu sem Anna svaraði með því að yppa öxlum vakti mikla athygli í gær en meðal annars var fjallað um málið hér á Vísi.

Gerðu fjölmiðlar því skóna að Elísabet hafi verið hissa á Önnu fyrir að heilsa ekki Trump en Low segir að bending drottningarinnar til dóttur sinnar hafi ekkert haft með Trump að gera.

Drottningin hafi verið að spyrja Önnu, eftir að hún heilsaði Trump, hver væri næstur en raunin var sú að Trump var síðasti gesturinn sem drottningin tók á móti.

Því hafi Anna prinsessa yppt öxlum og hlegið og svarað: „Það er bara ég,“ og bætt svo við „Og þau líka,“ um leið og hún benti á starfsfólk hallarinnar fyrir aftan sig.




Tengdar fréttir

Anna prinsessa yppti öxlum og heilsaði ekki Trump

Svo virtist sem Elísabet II Englandsdrottning væri hissa á því að dóttir sín, Anna prinsessa, stæði ekki með sér og Karli Bretaprins til þess að taka á móti Donald Trump, Bandaríkjaforseta, og konu hans, Melaniu Trump, við móttöku í Buckingham-höll í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×