Erlent

Ranglega fangelsaðir í 36 ár en hafa nú fengið frelsi sitt á ný

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Mennirnir þrír. Andrew Stewart til vinstri, Alfred Chestnut fyrir miðju í köflóttum jakka og svo Ransom Watkins með fallegt, fjólublátt bindi.
Mennirnir þrír. Andrew Stewart til vinstri, Alfred Chestnut fyrir miðju í köflóttum jakka og svo Ransom Watkins með fallegt, fjólublátt bindi. Vísir/AP
Þrír Bandaríkjamenn voru leystir úr haldi í nótt eftir að dómur yfir þeim var ógiltur. Fjölskyldur þeirra tóku á móti mönnunum fyrir utan dómshúsið.

Það var mikil gleði fyrir utan dómshús í bandarísku borginni Baltimore þegar mennirnir fengu frelsi sitt á ný í nótt. Þeir Alfred Chestnut, Ransom Watkins og Andrew Stewart höfðu verið í fangelsi síðustu 36 ár eftir að hafa fengið dóm fyrir morð á hinum fjórtán ára DeWitt Duckett.

Saksóknaraembætti borgarinnar setti nýlega af stað rannsókn byggða á nýjum sönnunargögnum sem leiddi svo sakleysi mannana í ljós. Sá sem nú er talið að hafi myrt Duckett var sjálfur skotinn til bana fyrir sautján árum.

Erfið ár

Watkins sagði árin 36 hafa verið afar erfið, í raun hreint helvíti. „Það sem olli því að við þrír stöndum hérna saman hefði aldrei átt að gerast,“ sagði hann og hélt áfram: „Einhver annar verður að gjalda fyrir þetta. Þeir geta ekki bara gengið burt. Því fólk þjáist enn.“

Og Chestnut tók í sama streng, sagðist svo hlakka til framtíðarinnar. „Ég hlakka til lífsins sem ég á eftir, vera eins auðmjúkur og friðsamur og ég er, lofa guð, hugsa um fjölskylduna mína. Ég get sagt ykkur að þetta er stórkostlegt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×