Fótbolti

Alli: „Gátum ekki spilað verr“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Harry Kane kann að skora mörk
Harry Kane kann að skora mörk vísir/getty
Harry Kane varð í kvöld fljótasti leikmaðurinn í sögunni til þess að skora 20 mörk í Meistaradeild Evrópu.

Kane skoraði tvö mörk í endurkomu Tottenham gegn Olympiacos í kvöld og er því kominn með 20 Meistaradeildarmörk. Það tók hann aðeins 24 leiki að skora þau, og bætti hann því met Alessandro del Piero sem skoraði sín 20 mörk í 26 leikjum.

Tottenham vann leikinn 4-2 eftir að hafa lent 2-0 undir.

„Byrjunin var vonbrigði, við vitum það, og við komum ekki inn í leikinn með þá orku sem þurfti,“ sagði Kane eftir leikinn.

„Þeir náðu tveimur mörkum og settu pressu á okkur, en við náðum mörkunum og það er gott að við náðum að tryggja okkur áfram.“

Spurður út í metið sagði Kane: „Þetta er ekki slæmur leikmaður til þess að taka met af. En þetta snérist um að komast áfram og við gerðum það.“

Dele Alli kom endurkomu Tottenham af stað með marki undir lok fyrri hálfleiks. Hann var líkt og Kane ekki sáttur með byrjunina hjá Tottenham.

„Við byrjuðum alls ekki nógu vel og sögðum í hálfleik að við gætum í raun ekki hafa spilað verr,“ sagði Alli.

„En það er á vissan hátt ágætt því þá gátum við ekki annað en gert betur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×