Aðeins 19 stig skilja að þrjá ökumenn í slagnum um þriðja sætið í heimsmeistaramótinu. Lewis Hamilton og Valtteri Bottas eru nú þegar búnir að tryggja sér fyrsta og annað sætið og Mercedes tryggði sér liðatitilinn í Japan.
Charles Leclerc situr í þriðja sætinu, 19 stigum á undan liðsfélaga sínum og fjórfalda heimsmeistaranum, Sebastian Vettel. Á milli þeirra er Red Bull ökuþórinn Max Verstappen.
Um mitt tímabil leit út fyrir að Verstappen væri sá eini sem gat ógnað Mercedes ökuþórunum en fjöldi refsinga fyrir að skipta um vélar eftir sumarfrí þýddi að Max átti aldrei möguleika.
Verstappen sigurstranglegur

Rétt eins og síðastliðin tvö ár kemur Hamilton til Brasilíu sem nýkrýndur heimsmeistari. Lewis hefur í tvígang unnið þar í landi en af núverandi ökumönnum er það Sebastian Vettel sem á flesta sigra á Interlagos, þrjá talsins.
Charles Leclerc á góðan möguleika á fá fleiri stig en liðsfélagi sinn á sínu fyrsta tímabili með Ferrari. Þó verður það ekki auðvelt fyrir unga Mónakó búann þar sem hann mun fá tíu sæta refsingu á ráspól í Brasilíu.
Ástæða þess er að Ferrari þurfti að skipta um vél í bíl Leclerc eftir bandaríska kappaksturinn og er Charles því búinn með allar þær vélar sem leyfilegt er að nota á einu tímabili.
Það verður því ansi áhugavert að fylgjast með hinum 22 ára Leclerc skjótast í gegnum flotann á sunnudaginn en kappaksturinn hefst klukkan 16:50 á sunnudag í beinni á Stöð 2 Sport 2.