Körfubolti

Nautin frá Chicago réðu ekkert við Giannis

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Giannis treður með tilþrifum.
Giannis treður með tilþrifum. vísir/getty
Giannis Antetokounmpo skoraði 38 stig og tók 16 fráköst þegar Milwaukee Bucks vann Chicago Bulls, 124-115, í NBA-deildinni í nótt. Þetta var annar sigur Milwaukee í röð en liðið er í 3. sæti Austurdeildarinnar.

Eric Bledsoe skoraði 31 stig fyrir Milwaukee og gaf átta stoðsendingar. Nýliðinn Coby White var stigahæstur hjá Chicago með 26 stig.



Fimm aðrir leikir fóru fram í NBA-deildinni í nótt.

Paul George lék sinn fyrsta leik fyrir Los Angeles Clippers þegar liðið tapaði fyrir New Orleans Pelicans, 132-127. George skoraði 33 stig og tók níu fráköst. Lou Williams skoraði 31 stig og gaf níu stoðsendingar. Kawhi Leonard var hvíldur hjá Clippers í nótt.

Jrue Holiday skoraði 36 stig fyrir New Orleans og Derrick Favors var með 20 stig og 20 fráköst.



Þreföld tvenna frá Luka Doncic dugði Dallas Mavericks ekki til gegn New York Knicks í Madison Square Garden. Lokatölur 106-103, Knicks í vil.

Doncic skoraði 33 stig, tók tíu fráköst og gaf ellefu stoðsendingar. Marcus Morris var stigahæstur í jöfnu liði Knicks með 20 stig. Hann skoraði sigurkörfuna þegar skammt var eftir af leiknum.



Miami Heat hélt sigurgöngu sinni áfram þegar liðið lagði Cleveland Cavaliers að velli, 97-108.

Kevin Nunn skoraði 23 stig fyrir Miami sem er í 2. sæti Austurdeildarinnar.



Úrslitin í nótt:

Milwaukee 124-115 Chicago

New Orleans 132-127 LA Clippers

NY Knicks 106-103 Dallas

Cleveland 97-108 Miami

Phoenix 128-112 Atlanta

Denver 101-93 Brooklyn

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×