Skoðun

Láttu ekki hirða af þér Ljósleiðarann

Erling Freyr Guðmundsson skrifar
Okkur hjá Gagnaveitu Reykjavíkur brá ónotalega þegar við fréttum af því að samkeppnisaðili væri að bjóða fólki að rífa búnaðinn okkar niður. Stundum er þetta meira að segja gert óumbeðið.

Fólk hefur fengið sölusímtöl þar sem því er boðið að fá annað tengibox ljósleiðara í stað þess sem við settum upphaflega upp. Á nokkrum stöðum hefur þetta verið gert þannig að ljósleiðaraþráðurinn sem við lögðum hefur verið rifinn í sundur, jafnvel þótt við höfum lagt annan þráð fyrir væntanlega samkeppni. Auðvitað má þetta ekki.

Við kærðum og Póst- og fjarskiptastofnun var okkur sammála. Þú setur ekki upp tengingu með því að skemma þá sem fyrir er og takmarkar þannig val neytenda. Það er enginn vafi að ljósleiðari Gagnaveitu Reykjavíkur hefur ef lt samkeppni á fjarskiptamarkaði. Þess vegna er það alvarlegt þegar fyrirtæki veldur raunverulegu tjóni með þessum hætti.

Samkeppni í fjarskiptaþjónustu birtist ekki síst í tækifærum fólks til að skipta um fjarskiptafyrirtæki og þjónustu án þess að kalla þurfi til tæknimann með tilheyrandi fyrirhöfn og kostnaði. Þannig var það á síðustu öld og á ekki að vera þannig lengur. Gagnaveita Reykjavíkur hefur af krafti og metnaði tengt nánast hvert einasta heimili innan þéttbýlis á höfuðborgarsvæðinu Ljósleiðaranum og með opnu neti boðið aukna valkosti fyrir viðskiptavini.

Hjálpaðu okkur nú að stuðla að heilbrigðari samkeppni á fjarskiptamarkaðnum. Fáir þú boð um að fjarlægja búnað Ljósleiðarans skaltu ekki þiggja það. Hann getur alveg staðið áfram þótt þú skiptir um þjónustufyrirtæki. Ef verið er að setja upp annað tengibox, farðu fram á að hitt verði ekki rifið niður. Þú átt að geta skipt um fjarskiptafyrirtæki á einfaldan og snöggan hátt, án þess að kalla þurfi til tæknimann í hvert skipti. Frímánuður getur verið dýr.

Höfundur er framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur sem rekur Ljósleiðarann.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×