Skoðun

Að slá frá sér flugum og sprengjum

Ingunn Lára Kristjánsdóttir skrifar
Konur sem slá frá sér fá kjaftshögg á við atómsprengju til baka.

Grafið er eftir öllum veikum persónueinkennum, mannlegum mistökum, öllum hikum og yfirsjónum til þess að grafa undan þeim.

Konur sem taka slaginn og falla og rísa aftur upp til þess að taka slaginn aftur, fyrir allar þær sem bíða í röð fyrir aftan, ættu að fá medalíu, ættu að fá faðmlög, ættu að fá klapp á bakið.

Einlægt klapp á bakið.

Þær í fremstu röð draga okkur hinar, sem erum of þreyttar, áfram. Þær telja niður daga í góða daga þar sem þær þurfa ekki að telja í okkur kjark.

Þær slá frá sér flugur og sprengjur, mjaka okkur áfram í átt að réttlátari heimi þar sem konur eru ekki slegnar fyrir að standa vörð um málstað, eru ekki slegnar fyrir að öskra eftir grundvallarmannréttindum, fyrir að svara fyrir sig, fyrir að svara fyrir þær sem eru niðurlægðar, þær, sem er hent út á götu, hrint fram af svölum.

Kurteisi er kjaftæði þegar konur þurfa að kyngja niðurfellingu nauðgunarmála, þurfa að réttlæta móðurhlutverk fatlaðra, þurfa að brosa á móti „bröndurum“.

Mig langar að þakka þeim sem hafa tekið slaginn. Þeim sem líta til baka til mín með glóðarauga, sprungna vör og blóðuga hnúa og blikka.

Blikka og klukka mig.

Þú næst, segja þær.




Skoðun

Sjá meira


×