Fótbolti

Nýliðar frá Andalúsíu á toppnum á Spáni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rui Silva og Domingos Duarte fagna sigri Granada CF um helgina.
Rui Silva og Domingos Duarte fagna sigri Granada CF um helgina. Getty/Aitor Alcalde Colomer
Granada situr í efsta sætinu í spænsku deildinni eftir 1-0 sigur á Real Betis um helgina.

Leik Barcelona og Real Madrid var frestað og það gaf nýliðunum tækifæri til að komast á toppinn. Liðið er komið með tuttugu stig eftir tíu leiki.

Barcelona, Real Sociedad, Atlético Madrid og Sevilla eru öll einu stigi á eftir og það eru síðan tvö stig niður í Real Madrid í sjötta sætinu.





Alvaro Vadillo var hetja Granada-liðsins í gær og skoraði eina markið en hann lék einmitt áður með mótherjunum í Real Betis.

Barcelona spilar við Real Valladolid annað kvöld og taka því toppsætið aftur með sigri.

Granada hefur aldrei unnið titil í 86 ára sögu félagsins en komust næst því tímabilið 1958-59 þegar þeir fóru alla leið í bikarúrslitaleikinn á móti Barcelona. Barcelona vann þann leik.

Besti árangur Granada-liðsins í efstu deild er sjötta sætið sem liðið náði tvisvar sinnum á áttunda áratugnum.





Granada var búið að vera tvö tímabil í B-deildinni en komst upp með því að ná öðru sætinu síðasta vor. Liðið var í D-deildinni í byrjun aldarinnar en lék í efstu deild frá 2011 til 2017.

Diego Martínez, 38 ára Spánverji, tók við liðinu sumarið 2018 og kom því upp á fyrsta ári. Hann hafði áður verið aðstoðarmaður hjá Sevilla og reyndi líka fyrir sér í eitt tímabil hjá Osasuna.

Tímabilið byrjaði ekkert alltof vel og liðið fékk aðeins eitt stig í fyrstu tveimur leikjunum. Síðan þá hefur Granada unnið sex af átta leikjum þar af þrjá þeirra 1-0. Á þeim tíma hefur liðið farið úr 14. sætinu og upp í það efsta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×