Enski boltinn

Solskjær: Hittum bara ekki markið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Solskjær ræðir við Marcus Rashford sem klúðraði vítaspyrnu gegn Crystal Palace.
Solskjær ræðir við Marcus Rashford sem klúðraði vítaspyrnu gegn Crystal Palace. vísir/getty
Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, var vonsvikinn eftir tapið fyrir Crystal Palace, 1-2, á Old Trafford í ensku úrvalsdeildinni í dag. Patrick van Aanholt skoraði sigurmark Palace í uppbótartíma, skömmu eftir að Daniel James jafnaði fyrir United.

„Þeir skoruðu tvö mörk en við bara eitt. Við vorum ekki nógu beittir fyrir framan markið á meðan þeir skoruðu tvö auðveld mörk,“ sagði Solskjær eftir leik.

„Við tókum okkur saman í andlitinu í seinni hálfleik en hittum bara ekki markið. Við vorum með yfirburði en stjórnuðum leiknum kannski ekki.“

Solskjær hefði viljað sjá sína menn klára leikinn betur.

„Við hefðum átt að gera betur undir lokin. Við vörðumst illa á köflum og það kom í bakið á okkur,“ sagði Solskjær.

Marcus Rashford skaut í stöng úr vítaspyrnu á 69. mínútu. Þetta er annar leikurinn í röð sem United klúðrar víti.

„Tveir leikir, tvö víti í súginn. Stundum gerist þetta. Ef við höldum áfram að koma okkur í þessar stöður fáum við fleiri víti og munum skora. Ég treysti þeim til að skora aftur,“ sagði Solskjær.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×