Enski boltinn

Arsenal á líka sinn Greenwood en Juventus og AC Milan sögð hafa mikinn áhuga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sam Greenwood gæti verið á leiðinni til Ítalíu.
Sam Greenwood gæti verið á leiðinni til Ítalíu. Getty/ David Price
Mason Greenwood hefur stimplað sig inn hjá Manchester United þrátt fyrir að halda ekki upp á átján ára afmælið sitt fyrr en í október. Annar ungur Greenwood hefur vakið athygli en sá spilar með Arsenal.

Ensku slúðurblöðin skrifuðu í morgun um áhuga ítalskra stórliða á hinum sautján ára gamla Sam Greenwood hjá Arsenal. Bæði Juventus og AC Milan hafa sett nafn stráksins á sinn óskalista samkvæmt fréttum hjá bæði Metro og The Sun.

Sam Greenwood sló í gegn með enska sautján ára landsliðinu í sumar þar sem hann skoraði þrjú mörk í þremur leikjum í úrslitakeppni EM U17. Greenwood skoraði þar á móti Hollandi, Svíþjóð og Frakklandi.





Njósnarar stóru félaganna voru greinilega að fylgjast með og ekki bara frá Ítalíu því einnig frá félögum í þýsku deildinni.

Sam Greenwood er nýkominn til Arsenal en hann kom þangað frá Sunderland á síðasta ári. Greenwood hafði verið í tíu ár í unglingaliðum Sunderland en fannst greinilega kominn tími á að reyna fyrir sér hjá stærra liði.

Það verður fróðlegt að sjá hvort þessi erlendi áhugi á stráknum pressi meira á það að hann fái að sðila með aðalliði Arsenal en það er mikil samkeppni í framlínu Arsenal þar sem eru menn eins og þeir Pierre-Emerick Aubameyangm, Nicolas Pépé og Alexandre Lacazette.

Juventus fékk Stephy Mavididi frá Arsenal á síðasta ári og Mavididi er búinn að fá tækifæri í Seríu A.

Ivan Gazidis, framkvæmdastjóri AC Milan, þekkir líka vel til stráksins en hann var hjá Arsenal þegar félagið fékk Sam Greenwood frá Sunderland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×