Fótbolti

Blikastúlkur byrja vel í Meistaradeildinni í ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Agla María Albertsdóttir skoraði tvö mörk og lagði upp eitt í sigri Blika í dag.
Agla María Albertsdóttir skoraði tvö mörk og lagði upp eitt í sigri Blika í dag. Vísir/Daníel
Íslandsmeistarar Breiðabliks unnu 4-1 sigur á ísraelsku meisturunum í ASA Tel Aviv í fyrsta leik sínum í undankeppni Meistaradeild Evrópu en riðill Blika er spilaður í Bosníu og Hersegóvínu.

Agla María Albertsdóttir skoraði tvö mörk fyrir Breiðablik en hin mörkin skoruðu þær Alexandra Jóhannsdóttir og Hildur Þóra Hákonardóttir.

Sigur Blika var sannfærandi en liðið komst yfir eftir fjórar mínútur, var komið í 2-0 eftir 25 mínútur og staðan var orðin 4-0 fyrir Blika þegar ísraelsku stelpunum tókst að minnka muninn.

Alexandra Jóhannsdóttir kom Breiðabliki í 1-0 strax á 4. mínútu eftir stoðsendingu frá Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur.

Agla María Albertsdóttir skoraði annað markið á 25. mínútu eftir undirbúning Berglindar Bjargar Þorvaldsdóttur og Blikar voru 2-0 yfir í hálfleik.

Hildur Þóra Hákonardóttir skoraði þriðja markið á 60. mínútu eftir hornspyrnu Öglu Maríu og Agla María skoraði síðan sjálf úr vítaspyrnu sex mínútum seinna eftir að ísraelskur varnarmaður hafði brotið á Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur innan teigs.

Shira Elinav minnkaði muninn í 4-1 aðeins fjórum mínútum eftir að Blikarnir skoruðu fjórða markið sitt.

Breiðablik mætir næst Dragon 2014 frá Norður-Makedóníu á laugardaginn en lokaleikurinn er síðan á móti SFK 2000 frá Bosníu á þriðjudaginn kemur. Efsta liðið í riðlinum kemst áfram í 32 liða úrslitin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×