Erlent

Hlýjasti júnímánuður á jörðinni frá því að mælingar hófust

Kjartan Kjartansson skrifar
Gervihnattarmynd af Skóflulækjarkjarreldinum norðvestur af Fairbanks í Alaska 9. júlí. Hitamet var sett í tvígang í Anchorage í síðustu viku.
Gervihnattarmynd af Skóflulækjarkjarreldinum norðvestur af Fairbanks í Alaska 9. júlí. Hitamet var sett í tvígang í Anchorage í síðustu viku. Vísir/AP
Meðalhiti hefur aldrei mælst hærri í júnímánuði frá því að mælingar hófust á 19. öld en í síðasta mánuði. Samkvæmt tölum bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA stefnir júlímánuður einnig á að vera sá hlýjasti í mælingasögunni.

Hitabylgja í vestanverðri Evrópu setti svip sinn á júnímánuð og átti þátt í að meðalhiti á jörðinni mældist 0,93 gráðum yfir meðaltali mánaðarins árin 1951 til 1980. Fyrra met var sett árið 2016 þegar hitinn var 0,82 gráðum yfir meðaltalinu, að því er segir í frétt Washington Post.

Víða voru hitamet slegin á meginlandi Evrópu í hitabylgjunni. Hæstur mældist hitinn 45,9°C í Gallargues-le-Montueux í Frakklandi. Eins var óvenjuhlýtt á norðurskautinu. Bráðnun fór þannig sérstaklega snemma af stað á Grænlandi og í Alaska hafa menn glímt við kjarrelda.

Mögulegt er að júlí slái met yfir hlýjasta mánuð sem mælst hefur á jörðinni frá upphafi mælinga. Það sem af er mánaðar er hlýrra en metárið 2017.


Tengdar fréttir

Reykjarmökkur og vatnavextir í hitabylgju í Alaska

Methlýindi í Alaska hafa skapað kjöraðstæður fyrir kjarrelda sem geisa nú víða í ríkinu. Leysingar á jöklum og fjöllum hafa einnig valdið vatnavöxtum og flóðum í ám og lækjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×