Fótbolti

Neymar sagður vera búinn að semja við Barcelona

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Neymar er til í að fórna miklum peningum til að spila aftur fyrir Barca.
Neymar er til í að fórna miklum peningum til að spila aftur fyrir Barca. vísir/getty
Samkvæmt heimildum spænska blaðsins Sport þá er allt klárt á milli Brasilíumannsins Neymar og Barcelona fari svo að spænska félagið geti keypt hann til baka frá PSG.

Neymar er orðinn hundleiður í París og er til í að fórna meðal annars miklum peningum til þess að komast aftur til Barcelona þar sem hann telur gleðina vera.

Sport segir að Neymar hafi náð samkomulagi um fimm ára samning við Börsunga. Leikmaðurinn verður því 32 ára er samningurinn rennur út.

Hann hefur verið næstlaunahæsti leikmaður heims með 36,8 milljónir evra, 5,2 milljarða króna, á ári hjá PSG en er til í að fara á gamla samninginn sinn hjá Barcelona sem færir honum 24 milljónir evra á ári eða 3,4 milljarða króna. Það er launalækkun upp á 1,8 milljarða á ári. Eitthvað sem gerist ekki á hverjum degi.

Spænska blaðið segir að Neymar hafi ekki einu sinni reynt að rífast um launin. Brasilíumaðurinn hefur verið í málaferlum við Barcelona þar sem hann telur félagið skulda sér laun. Hann mun draga það mál til baka.

Nú stendur það á félögunum að semja um kaupverð og það verður ekki auðvelt enda vill PSG græða á leikmanninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×