Skoðun

Hættum ohf-væðingunni

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Engin haldbær rök eru fyrir því að einkavæða póstþjónustu í landinu með því að selja Íslandspóst ohf. eins og fjármála- og efnahagsráðherra hefur talað fyrir. Frekar ætti að skoða á hvaða vegferð hið opinbera hefur verið með ohf-væðingu stofnana ríkis og sveitarfélaga og hvort tilefni sé til að vinda ofan af því ferli.

Póstþjónusta er samfélagsþjónusta rétt eins og heilbrigðisþjónustan, löggæsla, samgöngur og fleira og það verður að vera í forgrunni í allri umræðu um rekstrarform þjónustunnar. Markmiðið á að vera að tryggja almenningi um allt land þessa nauðsynlegu þjónustu með hagkvæmum hætti. Vandi Íslandspósts hefur ekki verið eignarhald félagsins heldur skortur á stefnumótun.

Sporin hræða þegar talið berst að einkavæðingu mikilvægra innviða, hvort sem er hér á landi eða í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Rannsóknir á einkavæðingu póstþjónustu í Evrópu sýna að einkaframtakið hefur ekki skilað bættri þjónustu og lægri kostnaði eins og til stóð. Þvert á móti hefur þjónustan versnað – sér í lagi í dreifbýli – og kostnaður notenda aukist á sama tíma og réttindi starfsfólks hafa verið skert.

Frekar en að ræða hvort rétt sé að selja opinbera hlutafélagið Íslandspóst ætti umræðan að snúast um hvort tími sé til að vinda ofan af ohf-væðingunni sem hið opinbera hefur staðið fyrir undanfarin misseri.

Ræðum frekar hverju það að flytja hluta reksturs ríkis og sveitarfélaga í opinber hlutafélög hefur skilað og hvað það hefur haft í för með sér. Rýnum þá þjónustu sem veitt er og kostnaðinn við að veita hana. Veltum upp spurningum um gegnsæi hjá þessum opinberu félögum. Ræðum hvort kjör stjórnenda hjá opinberum félögum séu úr öllum takti við það sem gerist hjá ríkinu og skoðum hvers vegna starfsfólk þessara opinberu hlutafélaga nýtur ekki sömu réttinda og þeir sem starfa hjá hinu opinbera.




Skoðun

Sjá meira


×