Skoðun

Rarik þvingar Mýrdal í verkfall

Einar Freyr Elínarson skrifar
Það er löngu kominn tími til þess að yfirstjórn Rarik komi í veg fyrir ítrekuð verkföll allra raftækja í Mýrdalshreppi, sem er einn fjölsóttasti ferðamannastaður Íslands. Þrátt fyrir að hér dvelji á hverjum tíma margar þúsundir ferðamanna þá þverskallast stofnanir við og neita að horfast í augu við gjörbreyttan veruleika.

Í dag (22. mars) fór rafmagnið af kl. 04:00 í morgun. Þegar þetta er skrifað kl. 14:00 er rafmagnið ekki komið á. Fyrir sex dögum síðan var rafmagnslaust í Mýrdal í tæpan sólarhring.

Það þarf ekki að fjölyrða um óþægindin sem þetta veldur íbúum svæðisins en vandræðin sem þetta skapar öllum þeim sem hér standa í fyrirtækjarekstri eru ómæld. Við sem hér höfum búið lengi þekkjum rafmagnsleysi en það sama verður ekki sagt um þær þúsundir ferðamanna sem hér dvelja. Rafmagnsleysi þýðir að víðast fer allt heitt vatn og eina lýsingin er með vasaljósum og kertum. Þetta veldur hótelum, gistiheimilum og öðrum þjónustuaðilum miklu fjártjóni og orðstír þeirra líður jafnframt fyrir þetta með slæmum umsögnum gesta sem eðlilega eru óánægðir.

Að þessu sögðu vil ég sérstaklega taka fram að gagnrýni þessari er ekki beint til viðgerðarfólks og þeirra sem svara símanum í bilanavakt Rarik. Ég kann þeim þakkir fyrir dugnað og ómælda þolinmæði gagnvart íbúum sem eðlilega eru pirraðir yfir rafmagnsleysinu.

Ég lýsi ábyrgð á þessu ófremdarástandi að fullu á hendur yfirstjórn Rarik. Þverskallast er við í hvert einasta skipti sem sveitarstjórn óskar eftir úrbótum og reynir að útskýra fyrir þeim að við búum við allt annan veruleika í dag en fyrir 20 árum. Okkur er svarað af yfirlæti og með útúrsnúningum.

Þetta er afskaplega einfalt:

• Það þarf að ljúka við að leggja línur í jörð. Það tekur skiljanlega tíma.

• Þar til því er lokið þá verður að útvega hér varaafl sem knúið getur allt sveitarfélagið.

Forstjóri Rarik svaraði áskorun um bætt afhendingaröryggi sem sveitarstjórn Mýrdalshrepps sendi stjórn Rarik í september 2018 á þann hátt að varaafl sem til staðar er sé viðunandi. Það er alrangt og löngu tímabært að við þessu sé brugðist.

Íbúar og fyrirtæki Mýrdalshrepps greiða jafn háa skatta og aðrir og þetta veldur sveitarfélaginu margra milljóna króna tapi. Við eigum rétt á því að brugðist sé við þessu viðvarandi ófremdarástandi.

Einar Freyr Elínarson, oddviti Mýrdalshrepps




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×