Viðskipti innlent

73 milljóna gjaldþrot Hvíta riddarans

Atli Ísleifsson skrifar
Hvíti riddarinn var rekinn í Háholti í Mosfellsbæ. Þar mun opna pizzastaðurinn Blackbox á næstu vikum.
Hvíti riddarinn var rekinn í Háholti í Mosfellsbæ. Þar mun opna pizzastaðurinn Blackbox á næstu vikum. Ja.is
Ekkert fékkst upp í rúmlega 73 milljóna kröfur í þrotabú félagsins HR2015 ehf., sem hélt utan um rekstur veitingastaðarins Hvíta riddarans í Mosfellsbæ. Félagið var tekið til gjaldþrotaskipta í september síðastliðnum sem lauk um miðjan febrúar.

Eini eigandi félagsins var Hákon Örn Bergmann. Hann rataði í fréttirnar í upphafi árs fyrir aðkomu sína að Skáksambandsmálinu svokallaða, sem Vísir fjallaði ítarlega um á sínum tíma. Hann var handtekinn á Hvíta riddaranum í upphafi árs 2018 í aðgerðum sérsveitarinnar við rannsókn málsins.

Við aðalmeðferðina í janúar síðastliðnum lýsti Hákon því hvernig Sigurður Kristinsson, sem hlaut að endingu fjögurra og hálfs árs fangelsisdóm, hafði ætlað sér að greiða niður skuld við sig með innflutning á ótilgreindum efnum.

Hákon sagðist hafa fengið slæma tilfinningu fyrir þessum innflutningi og að á einhverjum tímapunkti hafi hann fengið að heyra að um eitt kíló af fæðubótarefnum væri að ræða.

Sagðist Hákon að sama skapi hafa reynt að fjarlægja sig málinu eins og hann gæti. Þá hefði hann verið samvinnuþýður hjá lögreglu við að upplýsa málið. Hann var að engu að síður sakfelldur og hlaut 12 mánaða fangelsisdóm.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×