Martin Hermannsson og félagar tryggðu sér oddaleik gegn Unicaja Malaga í átta liða úrslitum Evrópukeppninnar í körfubolta með sigri í leik liðanna á Spáni í kvöld.
Frábær annar leikhluti lagði grunninn að sigri Alba Berlín en þeir unnu að endingu með tuttugu stiga mun, 101-81.
KR-ingurinn átti flottan leik í kvöld en hann skoraði ellefu stig. Hann bætti við átta stoðsendingum en sex sinnum var brotið á honum í leiknum. Það mesta af öllum í Berlínarliðinu.
Martin og félagar töpuðu fyrsta leiknum á heimavelli og náðu því með sigri kvöldsins að jafna metin. Oddaleikurinn fer fram í Þýskalandi á miðvikudagskvöldið.
