Körfubolti

„Ætluðum að gera þetta fyrir hana í kvöld“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Isabella Óska átti góðan leik fyrir Grindavík í kvöld.
Isabella Óska átti góðan leik fyrir Grindavík í kvöld. Vísir / Diego

Isabella Ósk Sigurðardóttir átti stórleik fyrir Grindavík er liðið vann óvæntan og dramatískan sigur gegn deildarmeisturum Hauka í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum Bónus-deildar kvenna í körfubolta í kvöld.

„Þetta er bara frábært. Við fylgdum okkar leikplani svona nokkurn veginn út leikinn og það skóp þennan sigur hér í kvöld,“ sagði Isabella í leikslok.

Þrátt fyrir að vera að elta Hauka stóran hluta leiksins hleyptu Grindvíkingar deildarmeisturunum aldrei of langt frá sér.

„Það er bara mjög góð stemning í hópnum og við vorum bara búnar að taka ákvörðun um það að hrista okkur vel saman og vera ekkert að hengja haus. Við erum búnar að sýna það í seinustu leikjum að stemningin skiptir máli.“

Isabella skoraði 17 stig fyrir Grindavík í kvöld, en hennar stærsta framlag var líklega að taka sex sóknarfráköst, flest þeirra undir lok leiksins þegar allt var undir.

„Ég ætlaði bara að nýta restina af orkunni til að ná niður þessum fráköstum,“ sagði Isabella.

Hún segir þó erfitt að hafa þurft að horfa upp á fyrirliða liðsins, Huldu Björk Ólafsdóttur, fara meidda af velli. Hulda meiddist að því er virtist illa í 1. leikhluta og óvíst er með frekari þáttöku hennar í úrslitakeppninni.

„Við töluðum saman og ákváðum að við ætluðum að gera þetta fyrir hana í kvöld. Hún er náttúrulega fyrirliðinn okkar og vonandi er þetta ekkert of alvarlegt. Vonandi getur hún verið með okkur restina af tímabilinu,“ sagði Isabella að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×