Fótbolti

Benzema fingurbrotnaði í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Karim Benzema sýnir brotinn litlafingur.
Karim Benzema sýnir brotinn litlafingur. Vísir/Getty
Franski framherjinn Karim Benzema missir af næsta leik Real Madrid og er þar með enn ein stjarna liðsins sem bætist á meiðslalista spænska stórliðsins.

Karim Benzema fingurbrotnaði í leik Real Madrid á móti Real Betis í gær. Hann fór af velli í hálfleik en Real Madrid vann leikinn 2-1.

Benzema lenti illa á hægri hendinni þannig að litlifingurinn brotnaði. Ljósmyndari Getty náðu mynd af því þegar Karim Benzema sýndi brotinn litlifingur eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan.

„Eftir myndatöku kom í ljós að kjúkan í litlafingri á hægri hendi er brotin. Félagið mun halda áfram að fylgjast með stöðunni á leikmanninum,“ segir í fréttatilkynningu frá Real Madrid.





Meðal annarra manna á meiðslalista Real Madrid í dag eru þeir Gareth Bale, Toni Kroos, Marco Asensio, Marcos Llorente og Thibaut Courtois.

Karim Benzema hefur skorað 7 mörk í 19 deildarleikjum með Real Madrid á þessu tímabili og þá var hann með 3 mörk í 6 leikjum í Meistaradeildinni.

Benzema skoraði ekki á móti Real Betis en mörk liðsins skoruðu króatíski miðjumaðurinn Luka Modric og hinn 22 ára gamli Dani Ceballos sem skoraði beint úr aukaspyrnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×