Innlent

Sextán ára fangelsi fyrir morðið á Hagamel

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Khaled Cairo þegar málið var tekið fyrir í héraðsdómi.
Khaled Cairo þegar málið var tekið fyrir í héraðsdómi. FBL/Ernir
Landsréttur hefur staðfest sextán ára fangelsisdóm yfir Khaled Cairo, 39 ára gömlum Jemena. Khaled var dæmdur til 16 ára fangelsisvistar í Héraðsdómi Reykjavíkur í apríl í fyrra fyrir að hafa banað Sanitu Brauna á heimili hennar á Hagamel í vesturbæ Reykjavíkur þann 21. september 2017.

Sanita var 44 ára gömul og frá Lettlandi. Hún lét eftir sig þrjú börn og foreldra. Khaled var gefið að sök að hafa slegið Sanitu með glerflöskum í höfuð og andlit, slegið hana í höfuðið með tíu kílóa þungu slökkvitæki og þrengt kröftuglega að hálsi hennar.

Khaled var í héraði dæmdur til að greiða hverju og einu þriggja barna Sanitu þrjár milljónir króna í bætur og foreldrum hennar 1,6 milljónir króna hvoru um sig. Lögmaður aðstandenda Sanitu fór fram á að bætur foreldranna yrðu hækkaðar til jafns við börnin. Fór svo að bæturnar voru staðfestar í Landsrétti.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi Khaled, krafðist sýknu fyrir dómi eða ellegar að dómurinn yrði mildaður. Það hefði ekki verið ætlan Khaled að myrða Sanitu heldur hefði hann tryllst á staðnum að því er fram kom í fréttum RÚV við meðferð málsins í Landsrétti.

Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari og saksóknari í málinu, sagði það fráleitt að halda því fram að ofsafengin og kvalafull árás Khaled hefði ekki verið tilraun til manndráps. Hann krafðist staðfestingu dómsins sem varð raunin.

Fram kom í máli Vilhjálms, verjanda Khaleds, við dómsuppsöguna í dag að Khaled uni dómnum. Ekki verði óskað eftir áfrýjunarleyfi til Hæstarétts.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×