Skoðun

Samgöngur til framtíðar

Halla Signý Kristjánsdóttir skrifar
Það má sjá bætt vinnubrögð í nýrri samgönguáætlun því hér í fyrsta skipti er hún í samræmi við samþykkta fjármálaáætlun frá Alþingi. Samgönguáætlun skal stefna að því að samgöngukerfi landsins myndi eina samþætta heild sem þjóni íbúum og atvinnulífi sem best. Auka á aðgengi fólks að vörum og þjónustu og bæta hreyfanleika.

Meginstoðir

Samgönguáætlun skal stefna að því að samgöngukerfi landsins myndi eina samþætta heild sem þjóni íbúum og atvinnulífi sem best. Það er ánægjulegt að sjá þær meginstoðir sem samgönguáætlun byggir á en lögð er áhersla á þær stóru stofnbrautir sem eru út úr höfuðborginni og nú á líka að klára grunnnet vegakerfisins á Vestfjörðum.

Strax á næsta ári skal hefja framkvæmdir við 2+1 veg á Kjalarnesi. Það er verkefni sem kallað hefur verið eftir og er mjög brýnt þar sem núverandi vegur uppfyllir engan veginn öryggiskröfur eða stendur undir þeirri gríðarlegu umferðaraukningu sem orðið hefur á undanförnum árum. Grunnnet á Vestfjörðum er í forgangi og búið að tryggja fjármagn í uppbyggingu á vegum á Dynjandisheiði um leið og hönnun á vegstæðinu er lokið og sú leið hefur farið í gegnum umhverfismat. Einnig er búið að tryggja fjármagn í uppbyggingu á vegum í Gufudalssveit. Þá geta Vestfirðingar loksins sagt að þeir búi við eðlilegt samgöngukerfi að mestu.

Samvinnuleið í vegamálum

Nokkuð hefur verið talað um um gjaldtöku vegna samgöngumannvirkja þegar horft er í einkaframkvæmdir. Til að hraða samgönguframkvæmdum er unnið að útfærslu gjaldtökuleiða sem nýtist á ákveðnum mannvirkjum. Slík gjaldtaka á einstaka mannvirkjum býr til svigrúm í samgönguáætlun og hægt að ráðast fyrr í einstök verkefni en gert er ráð fyrir í áætluninni. Nú um mánaðamótin var hætt gjaldtöku við Hvalfjarðargöng en hún er dæmi um góða samvinnuleið í úrbótum á samgöngumálum. Í þessu sambandi gætum við nefnt jarðgöng og stórar framkvæmdir í kringum höfuðborgina eins og Sundabraut og tvöföldun Reykjanesbrautar.

Tengivegir og vetrarþjónusta

Um land allt býr fólk við malarvegi sem eiga að þjóna samgöngum til skóla og í vinnu dagsdaglega. Oft eru þetta vegir sem uppfylla ekki kröfur um burðarþol og alls ekki þeær öryggiskröfur sem nútíminn gerir til slíkra samgangna. Dæmi eru um að börn þurfi að heiman og heim að hristast á holóttum malarvegi langan veg í skóla. Það skiptir miklu máli að lögð verði áhersla á að leggja bundið slitlag á tengivegi. Í þessu sambandi vil ég nefna Vatnsnesveg í Vestur-Húnavatnssýslu. Þar hefur umferð stóraukist á undanförnum árum, enda má finna á þeirri leið eina ferðamannaperlu okkar sem er Hvítserkur. Núverandi vegur hefur ekki staðið undir þeirri miklu umferð og getur því ekki talist til nútíma samgöngumannvirkja.

Í tillögu að nýrri samgönguáætlun er gert ráð fyrir að veita aukið fjármagn til að styrkja og leggja bundið slitlag á umferðarlitla tengivegi. Það er vonandi að hægt verði að leggja aukna áherslu á tengivegina og vetrarþjónustu með því að horfa á samvinnuleiðir í nýframkvæmdum á stórum framkvæmdum.




Skoðun

Sjá meira


×