Enski boltinn

Ólöf Helga: Þetta er bara ósanngjarnt og svindl

Benedikt Grétarson skrifar
Ólöf á hliðarlínunni í kvöld.
Ólöf á hliðarlínunni í kvöld. vísir/skjáskot
Ólöf Helga Pálsdóttir Woods, nýr þjálfari Hauka var auðvitað ekki sátt eftir 77-83 tap liðsins gegn Keflavík í Meistarakeppni KKÍ.

„Það vantaði algjörlega stöðugleikan hjá okkur í dag. Við byrjum illa og það hafði áhrif á allan leikinn fannst mér,” sagði Ólöf Helga í leikslok.

„Það var samt góður karakter að koma til baka og við gáfumst aldrei upp. Ég er bara stolt af stelpunum í dag og við skoðum bara hvað við getum gert betur í framhaldinu.“

„Það eru bara mín mistök sem þjálfari að vera ekki búin að undirbúa þær betur frá fyrstu mínútu. Ég hélt að við værum tilbúnar og klárar í slaginn en ég hef greinilega ekki náð nógu vel til þeirra frá fyrstu mínútu,“ sagði Ólöf Helga.

Lele Hardy fékk hressilegar móttökur hjá varnarmönnum Keflavíkur og Ólöfu fannst meðferðin heldur gróf.

„Já, mér finnst mjög ósanngjarnt hvernig það er leyft að lemja á Lele. Það eru þrír leikmenn að lemja á henni á sama tíma en dómararnir dæma ekkert af því hún er svo stór og sterk. Þetta er bara ósanngjarnt og bara svindl.“

„Ég er mjög ósátt hvað það er leyft endalaust að berja á henni og þetta tekur auðvitað mikið frá hennar leik. Á sama tíma rétt snertum við þær og þá er dæmd villa.”

„Ég vona að dómarar sjái að sér og breyti þessum hugsunargangi. Þó að „kanar“ sér betri og sterkari, þá eiga þeir líka skilið að fá villu þegar það er brotið á þeim,“ sagði Ólöf Helga að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×