Sá kennir viðskiptagreinar í Verzlunarskóla Íslands og voru því hæg heimantökin að reyna við eigin rekstur.
„Svo fórum við að gera þetta í afmælum og fjölskylduveislum, svo þegar viðbrögðin urðu alveg rosaleg í afmælum datt okkur í hug að þetta gæti verið eitthvað meira en bara fjölskyldubakkelsi,“ segir Egill.
Hörð samkeppni í matvögnum
Staðurinn opnar í sumar, en fjölbreyttir matarvagnar hafa sprottið upp á landinu undanfarin ár, þá sérstaklega í miðborg Reykjavíkur þar sem kaupa má ýmiss konar fisk, humar, hamborgara og pylsur úr slíkum vögnum – svo dæmi séu tekin – auk þess sem hinn rótgróni Vöffluvagn hefur staðið örfáum metrum frá snúðavagni feðganna í sumar.
„Það er ekki mikið mál að koma þessu af stað, kaupa vagn, koma honum til landsins og annað. Þegar þú ert kominn af stað þá hins verður þetta erfitt, enda þarftu að hafa úthaldið og áhugann til að keyra þetta áfram,“ segir Egill.
Nánari feðgar fyrir vikið
Sonurinn tekur að miklu leyti við keflinu í vetur, svo Egill hafi sjálfur tími til að sinna kennslunni. Þeir segja ýmsa hnökra hafa komið upp við undirbúning, t.a.m. þegar þeir mættu til Manchester að sækja vagninn stuttu áður en til stóð að hefja rekstur – en koma þar að hálfkláruðum vagni. Aftur á móti hafi reksturinn og samvinna við að sigrast á hinum ýmsu hindrunum orðið til þess að gera þá feðga enn nánari.
„Okkur hefur alltaf langað að gera eitthvað saman, fara út í einhvers konar rekstur eða annað ef tækifæri gæfist, þannig að við ákváðum að láta bara verða af þessu,“ segir Danival.
Rætt var við þá Egil og Danival í Íslandi í dag í gærkvöldi. Þar var auk þess litið við á slökkvistöðinni í Hafnarfirði, þar sem undirbúningur var í fullum gangi fyrir Íslandsmót slökkviliða sem haldið verður í fyrsta sinn í dag. Þar var m.a. rætt um starfið, álagið og áhugaverðan bakgrunn íslenskra slökkviliðsmanna – en fram til ársins 2015 var aðeins ein kona í hópnum.
Innslagið um feðgana hefst eftir um fimm og hálfa mínútu.