Fótbolti

Bale var reiður út í Zidane þegar hann ákvað að reyna við glæsimarkið

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Gareth Bale skorar markið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.
Gareth Bale skorar markið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Vísir/Getty
Gareth Bale skoraði frábæra bakfallsspyrnu í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í vor. Hann segir reiði út í Zindedine Zidane hafa knúið hann til þess að reyna við glæsimarkið.

Bale hefur ekki sagt mikið frá sínum upplifunum af úrslitaleiknum í Kænugarði í vor en ákvað að láta allt flakka í viðtali við Daily Mail í dag.

„Ég var frekar reiður ef ég á að vera alveg hreinskilinn,“ sagði Bale þegar hann lýsti tilfinningunni þegar Zidane setti hann loks inn á sem varamann í seinni hálfleik úrslitaleiksins.

Bale hafði skorað fjögur mörk í síðustu þremur leikjum Real fyrir úrslitaleikinn og það tók hann aðeins þrjár mínútur að skora fyrsta mark Evrópumeistaranna í úrslitaleiknum.

„Mér fannst ég eiga skilið að byrja þennan leik. Ég hafði skorað mörk í síðustu leikjum og það var erfitt að ýta reiðinni til hliðar.“

Walesverjinn hafði aldrei skorað mark með bakfallsspyrnu áður en hann sagðist samt ekki hafa verið stressaður að láta vaða.

„Þú getur valið að taka boltann niður og reyna að gera svo eitthvað við hann, en þú veist þú ert í stöðu þar sem það verður lokað fljótt á þig.“

„Þú hugsar ekkert um að líta heimskulega út. Ef þú reynir ekki hlutina þá gerast þeir aldrei. Ef þú hefur tíma til þess að hugsa þig um þá gerast hlutirnir ekki, það er þegar þú þarft að bregðast fljótt við sem hlutirnir gerast best.“

„Ég vissi nákvæmlega hvar boltinn var. Um leið og ég hitti hann þá vissi ég að spyrnan var góð,“ sagði Gareth Bale.

Allt viðtalið við Bale má lesa hér.


Tengdar fréttir

Leikmenn Real kenna Bale um brotthvarf Zidane

Leikmenn Real Madrid kenna liðsfélaga sínum Gareth Bale um brotthvarf Zinedine Zidane frá félaginu, en Frakkinn tilkynnti öllum að óvörum að hann ætlaði að hætta sem knattspyrnustjóri félagsins í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×