Skoðun

Úlfurinn

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Upphlaup hafa einkennt borgarmálin frá kosningum og fjallaði ritstjóri Fréttablaðsins nýlega um ábyrgð minnihlutaflokkanna á stöðunni í leiðara sem bar heitið „Úlfur, úlfur“. Þar er með réttu ástandið gagnrýnt, bent á borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins en Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi ein Sjálfstæðismanna látin sæta ábyrgð. Sú nálgun varpar ljósi á ósættið sem nú geisar meðal borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Til þess að geta fjallað um innanflokkskróníku Sjálfstæðismanna leggur ritstjórinn lykkju á leið sína og endurtekur kunnuglegt stef frá síðasta kjörtímabili um að allt væri í kalda kolum í Reykjavík. Fjármál í ólestri, hærri og hærri fasteignagjöld, illa mannaðir leikskólar, heimatilbúin húsnæðiskreppa og tekjustofnar hækkaðir með „sjónhverfingum“. Ekkert er fjarri lagi og staðreyndin sú að rekstur Reykjavíkurborgar gengur vel. Þannig voru borgarsjóður og fyrirtæki borgarinnar rekin með 28 milljarða hagnaði árið 2017. Þá hafa skuldir farið lækkandi síðustu ár, álagshlutfall fasteignagjalda lækkað á alla og fengu eldri borgarar og öryrkjar sérstakan afslátt.

Aldrei í sögu borgarinnar hafa fleiri íbúðir verið í byggingu. Við það bætist félagslega húsnæðisuppbyggingin sem ekkert annað sveitarfélag hefur séð sóma sinn í að taka þátt í. Samanborið við önnur sveitarfélög renna hlutfallslega mestir fjármunir til velferðarmála í Reykjavík. Það er því auðvelt fyrir nágrannasveitarfélögin að hafa útsvarið örlítið lægra þegar þau axla ekki ábyrgð á vanda heimilislausra og félagslegri húsnæðisuppbyggingu. Í Reykjavík eru 16 félagslegar íbúðir á hverja þúsund íbúa en hlutfallið tvær íbúðir í Garðabæ og á Seltjarnarnesi.

Fréttablaðið greindi nýlega frá því að leikskólamönnun gengur betur en síðustu ár. Það er auðvitað vond staða fyrir börn og fjölskyldur þeirra að geta ekki byrjað aðlögun þegar starfsfólk vantar. Flestir leikskólanna eru hins vegar mannaðir. Reykjavík er ekki fullkomin og verk núverandi og fyrrverandi meirihluta má sannarlega gagnrýna. Eitt af hlutverkum fjölmiðla er að varpa ljósi á það sem betur má fara en gagnrýnin má ekki byggja á hliðarveruleika. Vonandi verður umræðan um borgarmál hófstilltari í vetur því það er öllum ljóst að upphrópanir gera lítið fyrir borgarbúa.

Höfundur er formaður ferlinefndar og borgarstjórnarflokks Samfylkingarinnar




Skoðun

Sjá meira


×