Sport

Katrín Tanja í 15. sæti eftir vandræði í þriðju grein

Einar Sigurvinsson skrifar
Katrín Tanja Davíðsdóttir.
Katrín Tanja Davíðsdóttir. Road to the Games
Katrín Tanja Davíðsdóttir var ólík sjálfri sér þegar hún endaði í 36. sæti í þriðju grein heimsleikanna í CrossFit. Anníe Mist Þórisdóttir er efst íslenskra kvenna á leikunum í 5. sæti.

Þriðja grein heimsleikanna snerist alfarið um styrk keppenda. Greinin kallast „CrossFit Total“ og í henni hafa keppendur 12 mínútur til að taka eina hnébeygju, eina axlarpressu og eina réttstöðulyftu, eins þungt og mögulegt er.

Sigurvegari heimsleikanna í fyrra, Tai-Clair Toomey stóð uppi sem sigurvegari í greininni en hennar þyngstu lyftur voru samtals 875 pund, eða tæplega 400 kíló.

Anníe Mist Þórisdóttir var í 9. sæti, en hún lyfti samtals 820 pundum. Sara Sigmundsdóttir var jöfn í tíunda sæti eftir að hafa lyft 810 pundum.

Oddrún Eik Gylfadóttir var í 35. sæti með 715 pund og Katrín Tanja Davíðsdóttir var í 36. sæti með 705 pund.

Björgvin Karl Guðmundsson var í 15. sæti í karlaflokki en hann lyfti samtals 1.185 pundum eða 540 kílóum. Royce Dunne var í 1. sæti en hann lyfti samtals 1.255 pundum eða 570 kílóum.

Að þremum greinum loknum er Björgvin Karl enn í 5. sæti með 186 stig. Sigurvegari leikanna síðustu tvö árin, Mathew Fraser, er í 1. sæti með 240 stig og Adrian Mundwiler er í 2. sæti með 206.

Anníe Mist er í 5. sæti með 188 stig, Sara Sigmundsdóttir er í 14. sæti með 150 stig. Katrín Tanja er í 15. sæti með 146 stig, Oddrún Eik er í 25. sæti með 108 stig. Tia-Clair Toomey er efst með 274 stig og skammt á eftir henni í 2. sæti er Laura Horvath með 154 stig.

Fjórða og síðasta grein dagsins hefst klukkan tíu í kvöld á íslenskum tíma. Greinin verður 42 kílómetra róður og er gert ráð fyrir að það taki keppendur á bilinu þrjá til fjóra klukkutíma að ljúka greininni, sem verður sú lengsta í sögu heimsleikanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×