Sport

Annie Mist þriðja eftir fyrsta keppnisdag

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Anníe Mist Þórisdóttir stóð sig best Íslendinganna í maraþonróðri. Hér er hún í fyrstu greininni.
Anníe Mist Þórisdóttir stóð sig best Íslendinganna í maraþonróðri. Hér er hún í fyrstu greininni. Mynd/Instagram/anniethorisdottir
Fyrsta keppnisdegi á heimsleikunum í CrossFit lauk í nótt með lengstu keppnisgrein í sögu leikanna þar sem keppt var í maraþonróðri. Íslendingarnir fimm voru í eldlínunni og var það reynsluboltinn Annie Mist Þórisdóttir sem náði bestum árangri.

Fylgst var með keppninni á Vísi í beinni textalýsingu.

Annie Mist hafnaði í 3.sæti en hún var 3 klukkutíma, 2 mínútur og 46 sekúndur að klára maraþonið en hin bandaríska Marqaux Alvarez var fyrst á 3:00:42.

Katrín Tanja Davíðsdóttir kláraði skömmu síðar en Annie og hafnaði í 5.sæti. Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir hafnaði í 10.sæti og Oddrún Eik Gylfadóttir í 30.sæti.

Annie Mist er í 3.sæti í heildarkeppni kvenna að loknum þessum fyrsta keppnisdegi sem hefur verið kallaður erfiðasti dagurinn í sögu heimsleikanna í CrossFit. Katrín Tanja er sjötta, Ragnheiður Sara tíunda og Oddrún Eik í 28.sæti.

Karlamegin varð Björgvin Karl Gunnarsson fjórtándi í róðrinum á 2:51:17 en Björgvin er áttundi í heildarkeppninni að fyrsta keppnisdegi loknum. Lukas Esslinger frá Sviss kláraði fyrstur af körlunum á 2:43:50.

Í dag fá keppendur tækifæri til að hvíla eftir þennan strembna fyrsta keppnisdag en keppni hefst aftur á föstudag og mun Vísir halda áfram að fylgjast vel með íslenska hópnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×