Fótbolti

Aldrei jafnmargir strákanna okkar fengið krampa

Kolbeinn Tumi Daðason á Laugardalsvelli skrifar
Fjórir leikmenn Íslands fengu krampa í leiknum í kvöld að sögn Heimis Hallgrímssonar.
Fjórir leikmenn Íslands fengu krampa í leiknum í kvöld að sögn Heimis Hallgrímssonar. Vísir/Vilhelm
Heimir Hallgrímsson segir muninn á frammistöðu karlalandsliðsins í 2-2 jafnteflinu gegn Gana í kvöld fyrst og fremst að finna í þreytu leikmanna í síðari hálfleik. Okkar menn leiddu 2-0 í hálfleik eftir kraftmikla frammistöðu. Í seinni hálfleik voru gestirnir sprækari, vantaði orku og kraft í strákana okkar sem fengu á sig tvö mörk og jafntefli niðurstaðan.

„Við vorum með sterkan varnarleik og náðum að setja þá undir pressu, færðum liðið vel og lokuðum svæðum,“ sagði Heimir á blaðamannafundi um fyrri hálfleikinn. Það þurfi gegn liðum eins og Nígeríu þar sem leikmenn séu miklir íþróttamenn, góðir með boltann og mikla hlaupagetu.

„Þetta er það sem mun bíða okkar í leik eins og gegn Nígeríu.“

Í seinni hálfleik hafi menn farið að þreytast. 

„Það er stærsta ástæðan fyrir því að við náðum ekki að framkalla sama varnarleik og í fyrri hálfleik,“ sagði Heimir. „Ég hef aldrei verið í leik með þessum strákum og jafnmargir fengið krampa og beðið um skiptingu.“

Taldist Heimi til að fjórir leikmenn liðsins hefðu fengið krampa. Minnti hann aftur á hlaupagetu Ganverja sem hefðu hlaupið Japan í kaf þegar liðið vann sigur á þeim japönsku á dögunum.

„Það er styrkur þessarar þjóðar.“

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×