Fótbolti

Gæti komist á HM í fimmta sinn

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Marquez er í guðatölu í Mexíkó.
Marquez er í guðatölu í Mexíkó. vísir/getty
Mexíkóinn Rafael Marquez gæti komist í fámennan hóp manna á HM í Rússlandi í sumar enda á hann möguleika á því að komast á HM í fimmta sinn á ferlinum.

Varnarmaðurinn Marquez er orðinn 39 ára gamall en hann var í gær valinn í 28 manna hóp mexíkóska landsliðsins. Það fara 23 leikmenn á HM.

Aðeins tveir leikmenn hafa náð þeim einstaka áfanga að spila fimm sinnum á HM. Það eru Þjóðverjinn Lothar Matthaus og Mexíkóinn Antonio Carbajal.

Lokahópur Mexíkóanna verður valinn þann 4. júní. Marquez hefur þegar spilað 143 landsleiki fyrir þjóð sína. Hann er eini leikmaðurinn í sögu HM sem hefur verið fyrirliði á fjórum HM.

Á hátindi ferilsins var Marquez að spila með Barcelona og vann Meistaradeildina tvisvar og spænsku deildina fjórum sinnum með félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×