Fótbolti

Evrópsku deildirnar ætla að berjast gegn stækkun HM 2022

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eftirlíking af HM-styttunni og fyrir aftan er fáni Katar.
Eftirlíking af HM-styttunni og fyrir aftan er fáni Katar. Vísir/Getty
Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA er nú komin með hugmyndir um að stækka heimsmeistaramótið sem fer fram í Katar 2022.

Gianni Infantino, forseti FIFA, vill prófa það að stækka keppnina upp í 48 liða úrslitakeppni. Það þýðir sextán fleiri þátttökuþjóðir en á komandi heimsmeistaramóti í Rússlandi.

FIFA er þegar búið að færa heimsmeistarakeppnina 2022 frá sumrinu fram í nóvember vegna þess að það er of heitt í Katar yfir sumarið.

Mótið telur nú 28 daga daga en það þarf að minnsta kosti fjóra daga til viðbótar til að fjölga upp í 48 þjóða mót.

Heimsmeistarakeppnin fer fram á miðju tímabili í evrópsku deildunum og slík viðbót þýðir að deildirnir í Englandi og Spáni myndu missa eina viku í viðbót.

Lars-Christer Olsson, formaður samtaka 32 deilda í Evrópu, segir að þetta komi ekki til greina.

„Við erum ekki tilbúnir að geta frekari breytingar á keppnisdagatalinu til að geta stækkað HM,“ sagði Lars-Christer Olsson.

„Við höfum þegar gefið mikið eftir með því að samþykkja það að HM fari fram um vetur í Katar og það er búið að ná samkomulagi um dagana. Það er enginn okkar tilbúinn í það að HM taki enn lengri tíma,“ sagði Olsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×