Fótbolti

Fær ekki að snúa heim ef hann meiðir Messi

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Lionel Messi er skærasta stjarna argentíska landsliðsins
Lionel Messi er skærasta stjarna argentíska landsliðsins Vísir/Getty
Varnarmaðurinn Gabriel Mercado verður í erfiðri stöðu þegar lið hans Sevilla mætir Barcelona í úrslitum spænsku bikarkeppninnar um helgina. Mercado vill vinna leikinn en hann má ekki fara of hörðum höndum um Lionel Messi.

Mercado er Argentínumaður og hann fengi heldur betur að heyra það heiman frá ef hann skaðaði stórstjörnu argentíska landsliðsins tæpum tveimur mánuðum fyrir Heimsmeistaramótið í Rússlandi.

„Ef ég slæ hann fæ ég ekki að fara aftur til Argentínu,“ sagði Mercado í viðtali við spænska fjölmiðla.

„Þú getur ekki stöðvað Messi með því að brjóta á honum því hann stendur bara upp og heldur áfram, hann vill spila fótbolta. Það eina sem hann hugsar um á vellinum er að skora mörk.“

Mercado þarf þó að gera sitt til þess að stoppa Messi vilji hann og hans liðsfélagar verða fyrsta liðið til þess að sigra Barcelona heima fyrir á tímabilinu og næla í spænska bikarmeistaratitilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×