Enski boltinn

Salah ánægður með að vera líkt við Messi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah er mjög trúaður sem sést á fögnum hans.
Mohamed Salah er mjög trúaður sem sést á fögnum hans. Vísir/Getty
Mohamed Salah er mættur heim til Egyptalands til að taka þátt í verkefnum landsliðsins. Það hefur ekkert farið framhjá löndum hans að knattspyrnuspekingar hafa verið að líkja Liverpool framherjanum við sjálfan Lionel Messi.

Salah var mættur á blaðamannafund á vegum landsliðsins í gær en Egyptar eru á leiðinni á HM í Rússlandi og verða þar í riðli með Rússum, Úrúgvæum og Sádum. Fyrsti leikurinn á HM er á móti Úrúgvæ.

Næst á dagskrá eru aftur á móti tveir vináttulandsleikir í Zürich í Sviss þar sem Egyptar leika við Portúgal 23. mars og Grikki 27. mars.

Egypskir blaðamenn fengu tækifæri til að spyrja stórstjörnuuna sína spjörunum úr á blaðamannafundinum en Salah fór á kostum í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi og skoraði þá fernu á móti Watford.

Mohamed Salah var meðal annars spurður út í samanburðinn við Lionel Messi en eins um það hvernig hann líti á samfélagsmiðla.







„Það er auðvitað mjög gott fyrir mig að vera líkt við svo stóran leikmann. Menn voru að bera saman mörkin hans og mín, sagði Mohamed Salah og var greinilega ánægður með að vera líkt við Lionel Messi.

Mohamed Salah hefur sex stiga forystu á Lionel Messi í baráttunni um Gullskó Evrópu, hefur skorað 28 mörk í ensku úrvalsdeildinni á móti 25 mörkum messi í spænsku deildinni.

Mohamed Salah hefur heldur ekki miklar áhyggjur af samfélagsmiðlunum sem hann notar bara sér til skemmtunnar.

„Ég get ekki látið samfélagsmiðlana hafa áhrif á mig hvort það er að breyta skapinu mínu eða breyta sýn mini á lífið. Ég læt þá ekki trufla mig,“ sagði Salah.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×