Vísindamenn við Snjó- og ísgagnamiðstöð Bandaríkjanna (NSIDC) telja að hafísinn hafi náð hámarki sínu 17. mars. Þá var um milljón ferkílómetrum minni en langtímameðaltalið á þessum árstíma. Reuters-fréttastofan segir að það jafnist á við flatarmál Egyptalands.
Mikil hitabylgja gekk yfir norðurskautið í febrúar. Fór hitinn á sumum hlutum þess allt að 25°C yfir meðaltal fyrir árstíma. Á norðurpólnum er talið að hitinn hafi um tíma farið yfir frostmark. NSDIC segir að fjögur lægstu hámarksgildi hafíssins hafi öll mælst síðustu fjögur árin.
Á suðurskautinu segir NSIDC að hafísinn hafi náð næstuminnstu lágmarksútbreiðslu sinni að sumri frá upphafi gervihnattamælinga á 8. áratug síðustu aldar. Metárið í þeim efnum var sett í fyrra.
