Fótbolti

Tekst Brössunum loksins að drepa 7-1 drauginn í kvöld?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thiago Silva hughreystir David Luiz eftir leikinn á móti Þjóðverjum á HM 2014.
Thiago Silva hughreystir David Luiz eftir leikinn á móti Þjóðverjum á HM 2014. Vísir/Getty
Í kvöld fer fram vináttulandsleikur á Ólympíuleikvanginum í Berlín sem skiptir kannski talsvert meira máli en margur vináttulandsleikurinn.

Ástæðan er að þar munu mætast landslið Þýskalands og Brasilíu og er þetta fyrsti leikur þeirra síðan að Þýskalandi vann 7-1 sigur á Brasilíu í undanúrslitum HM í Brasilíu 2014.

Tap Brasilíumanna er ein mesta niðurlæging í sögu brasilísku þjóðarinnar enda liðið að keppa á heimavelli og þetta átti að vera leikur milli tveggja af bestu knattspyrnulandsliðum heims. Úrslitin sögðu allt aðra sögu.

„Þessi leikur skiptir gríðarlega miklu máli fyrir okkur andlega og það getur enginn haldið öðru fram,“ sagði Tite, þjálfari brasilíska landslðsins.





„7-1 tapið er eins og draugur og fólk er enn að tala um þann leik. Því meira sem er talað um hann því lengur lifir draugurinn,“ sagði Tite við BBC.

Toni Kroos skoraði tvisvar í undanúrslitaleiknum 2014 og Miroslav Klose bætt markamet HM með sínu sextánda HM-marki. Þýska landsliðið var komið í 5-0 eftir aðeins 29 mínútna leik.

„Ég var að horfa á leikinn [frá 2014] heima hjá mér með eiginkonunni og eftir þriðja markið þeirra þá fór hún að gráta,“ sagði Tite.

„Sárið er ennþá opið og leikurinn í Berlín er hluti af herferð okkar til að loka því,“ sagði Tite.

Þýska landsliðið varð síðan heimsmeistari eftir 1-0 sigur á Argentínu í úrslitaleiknum. Brasilíumenn töpuðu 3-0 fyrir Hollandi í leiknum um þriðja sætið.

Brasilíumenn voru aftur á móti sannfærandi í undankeppni HM 2018 og eru enn á ný líklegir til afrek á heimsmeistaramóti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×